Bretar björguðu Abedi frá Líbíu

Salman Abedi var 22 ára er hann framdi ódæðið í …
Salman Abedi var 22 ára er hann framdi ódæðið í Manchester í fyrra. AFP

Maðurinn sem sprengdi sjálfan sig í loft upp og drap 22 aðra í leiðinni á tónleikum Ariönu Grande á Manchester Arena í maí í fyrra, Salman Abedi, kom til Bretlands eftir að breski sjóherinn bjargaði honum frá borgarastríðinu í Líbíu ásamt fjölda annarra breskra ríkisborgara árið 2014.

Daily Mail og Guardian fjalla um þetta.

Ódæðismaðurinn Abedi var 19 ára gamall er hann kom um borð í skip sjóhersins, HMS Enterprise, í Trípólí, höfuðborg Líbíu, með yngri bróður sínum Hashem og meira en 100 öðrum breskum ríkisborgurum árið 2014. Það hefur komið upp úr krafsinu, fyrst núna, í kjölfar uppljóstrunar Daily Mail. 

Nafn Abedis var á lista yfir breska ríkisborgara sem voru strandaglópar í Líbíu eftir að borgarastyrjöldin þar braust út. Þeir ferðuðust með skipi sjóhersins til Möltu, þaðan sem þeir flugu svo til Bretlands.

Guardian hefur eftir talsmanni bresku ríkisstjórnarinnar að er ástandið versnaði í borgarastríðinu í Líbíu árið 2014 hafi sjóherinn verið kallaður til, til þess að hjálpa breskum þegnum sem voru þar staddir.

Leyniþjónustan rannsakaði Abedi

Breska leyniþjónustan, MI5, hafði fylgst með Abedi eftir að hann hélt upphaflega til Líbíu, en rannsókn á málum hans var lokið án athugasemda mánuði áður en honum var bjargað til Bretlands.

Anderson-rannsóknarnefndin, sem skoðar hryðjuverkaárásina á Manchester Arena, segir að það hafi verið rétt ákvörðun, miðað við þær upplýsingar um Abedi sem leyniþjónustan hafði undir höndum á þeim tíma, en hann tók sér frí frá háskólanámi til þess að fara til Líbíu, þar sem foreldrar hans voru búsettir.

Heimildarmaður innan bresku ríkisstjórnarinnar sagði við Daily Mail að það að Abedi hafi framið ódæðisverk á breskri grundu eftir að bresk yfirvöld björguðu honum frá stríðinu í Líbíu árið 2014 séu mikil svik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert