Kynferðisleg misnotkun er landlæg innan samtaka og stofnana sem sinna alþjóðlegu hjálparstarfi. Þeir sem starfa innan geirans eru haldnir ranghugmyndum og sjálfsblekkingu um árangur þess sem gert er til að taka á vandanum.
Þetta er niðurstaða rannsóknar breskrar þingnefndar. Skýrsla nefndarinnar var birt í dag. Í henni kemur fram að það regluverk sem samtök og stofnanir sem sinna hjálparstarfi hafa sett sér hafi algjörlega brugðist þegar kemur að því að taka á kynferðislegri misnotkun sem þar þrífst. „Andvaraleysis“ hafi gætt gagnvart vandamálinu, segir í skýrslunni.
Þingmenn hófu rannsókn á hjálparstarfi í kjölfar hneykslismáls sem kom upp fyrr á þessu ári í tengslum við bresku góðgerðarsamtökin Oxfam á Haítí. Í ljós kom að starfsmenn samtakanna höfðu keypt vændi af konum í viðkvæmri stöðu á eyjunni í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta sem þar varð árið 2010.
Í kjölfarið kom upp á yfirborðið fjöldi annarra mála tengdur samtökunum og öðrum á sama sviði.
Þingnefndin segir að ómögulegt sé að meta umfang vandans að fullu en að grunur leiki á að þekkt mál séu aðeins toppurinn á ísjakanum.
„Kynlífsþrælkun og misnotkun á sér stað og hún er að eiga sér stað þvert á öll samtök, lönd og stofnanir. Þetta er faraldur og hann hefur viðgengist í langan tíma,“ segir í skýrslunni.„Níðingar hafa grafið undan þeirri aðstoð sem veitt er fólki og samfélögum í neyð. Þeir hafa veikt það kerfi sem byggt er á.“
Þingnefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að viðbrögð innan geirans á alþjóðavísu hafi verið treg, sein og gloppótt. Stjórnendur hafi ekki tekið á málum heldur séu haldnir sjálfsblekkingu þegar kemur að viðbrögðum þeirra við vandanum.
„Refsileysi við níð og kynferðislegri misnotkun er algjörlega ósásættanleg. Ábyrgðarleysið grefur undan þeirri stefnu að ekkert [ofbeldi] sé liðið,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Nefndin leggur til að tekin verði upp alþjóðleg skrá yfir þá sem vinna í hjálparstarfi svo að koma megi í veg fyrir að níðingar fái að leika þar lausum hala. Í skýrslunni er það einnig harðlega gagnrýnt að viðbrögð stofnana og samtaka hafi verið til þess gerð að vernda orðspor stofnana og samtaka. Með þeim hætti verði ekki raunverulegar breytingar til góðs.
Þann 18. október verður haldin stór ráðstefna í Bretlandi þar sem fara á yfir þessi mál. Markmiðið er að ná samkomulagi um hvernig taka beri á vandanum.
Penny Mordaunt, ráðherra þróunarmála í Bretlandi, segir að hafa verði fórnarlömbin í fyrirrúmi. „Við samþykkjum ekkert fyrr en geirinn er að fullu tilbúinn að taka á valdaójafnvæginu, menningunni og þeirri hegðun sem gerir það að verkum að kynferðisleg misnotkun og áreiti þrífst.“
Judith Brodie, sem fer fyrir Bond, regnhlífarsamtökum breskra hjálparsamtaka, segir að unnið sé að því að útrýma kynferðislegri misnotkun innan geirans. Hún segir að samtökin geri sér grein fyrir að ekki sé hægt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Breyting sé þegar að eiga sér stað.
Caroline Thomson, stjórnarformaður Oxfam, segir að lestur skýrslunnar hafi verið sársaukafullur. „Okkur mistókst að vernda viðkvæmar konur á Haítí og við viðurkennum að við hefðum átt að greina frá því skilmerkilega á sínum tíma. Okkur þykir það mjög leitt.“