Nelson Chamisa, frambjóðandi Lýðræðishreyfingarinnar (MND), hefur lýst yfir sigri í forsetakosningnunum í Simbabve sem fóru fram í gær. Emmerson Mnangagwa, forseti landsins, sagðist þó einnig jákvæður á sigurlíkur sínar.
Mnangagwa tilheyrir flokknum Zanu-PF, sama flokki og Robert Mugabe tilheyrði en Mugabe lýsti því opinberlega yfir í aðdraganda kosninganna að hann kysi gamla flokkinn sinn ekki í kosningunum.
Kosningarnar eru sögulegar þar sem þær eru þær fyrstu frá því landið hlaut sjálfstæði árið 1980. Mugabe var hrakinn frá völdum í fyrra eftir tæpa fjóra áratugi á valdastóli. Frambjóðendur voru nokkrir tugir talsins en valið var á milli tveggja þeirra, Emmerson Mnangagwa og Nelson Chamisa. Bentu skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna til þess að Mnangagwa hefði naumt forskot á Chamisa.
AFP hefur eftir Tendai Biti, hátt settum stjórnmálamanni innan Lýðræðishreyfingarinnar, að flokkurinn myndi ekki hika við að birta kosningaúrslit sín ef sigur Chamisa yrði ekki viðurkenndur.
„Það er hafið yfir allan vafa að við sigruðum í þessum kosningum og næsti forseti Simbabve er Nelson Chamisa,“ sagði Biti á fjölmiðlafundi fyrir utan höfuðstöðvar flokksins í Harrare í dag.