Að minnsta kosti einn er látinn eftir að til óeirða kom í höfuðborg Simbabve eftir að tölur voru birtar í þingkosningunum í dag. BBC segir herinn hafa skotið á mannfjölda í höfuðborginni Harare eftir að stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar gengu þar berserksgang.
Mannfjöldi hafði safnast saman í miðborginni og beðið þar frá því í morgun, en þegar fréttir bárust af því að stjórnarflokkurinn ZANU-PF hefði farið með sigur af hólmi í þingkosningunum á mánudag, kom til óeirða.
BBC segir mannfjöldann hafa gengið berserksgang á götum Harare og að hópurinn hafi haldið í átt að gamalli flokksskrifstofu ZANU-PF vopnaður prikum og grjóti. Fólkið hrópaði „Við viljum Chamisa“, en Nelson Chamisa er er frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins Lýðræðishreyfingarinnar (MND). Sprautaði óeirðalögregla vatni á mannfjöldann og notaði táragas til að dreifa hópnum.
Stjórnarandstöðuflokkurinn MDC segir að brögð hafi verið í tafli í kosningunum, en yfirkjörstjórn lýsti því yfir í dag að ZANU-PF hefði fengið yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í þingkosningunum og hafi þegar tryggt sér yfir 150 þingsæti af 210. MDC hafi tryggt sér um fjörutíu.
Ekki liggur enn fyrir hver fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum, sem fóru fram samhliða þing- og sveitarstjórnarkosningum.
Hafa eftirlitsmenn kosningaeftirlits Evrópusambandsins lýst yfir áhyggjum af því hve langan tíma taki að telja atkvæði vegna forsetakosninganna.
Settur forseti, Emmerson Mnangagwa, sem er leiðtogi ZANU-PF, hefur hvatt kjósendur til að sýna þolinmæði.
Kosningarnar á mánudag eru þær fyrstu sem fram fara í landinu eftir að Robert Mugabe, forseti til 37 ára, lét af völdum. Í tíð Mugabes voru ásakanir um kosningasvindl tíðar og oft brutust út átök í tengslum við þær. Núverandi forseti, Emmerson Mnangagwa, og forsetaframbjóðandi ZANU-PF, hefur heitið því að uppræta spillingu í landinu og bauð því eftirlitsteymi frá ESB að fylgjast með gangi kosninganna.