Átök milli hers og stjórnarandstæðinga í Simbabve

Mikil óánægja greip um sig meðal stuðningsmanna MDC þegar tilkynnt …
Mikil óánægja greip um sig meðal stuðningsmanna MDC þegar tilkynnt var að stjórnarflokkurinn hefði farið með sigur af hólmi í þingkosningunum. AFP

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að til óeirða kom í höfuðborg Simbabve eftir að tölur voru birtar í þingkosningunum í dag. BBC segir herinn hafa skotið á mannfjölda í höfuðborginni Harare eftir að stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar gengu þar berserksgang.

Mannfjöldi hafði safnast saman í miðborginni og beðið þar frá því í morgun, en þegar fréttir bárust af því að stjórnarflokkurinn ZANU-PF hefði farið með sigur af hólmi í þingkosningunum á mánudag, kom til óeirða.

BBC segir mannfjöldann hafa gengið berserksgang á götum Harare og að hópurinn hafi haldið í átt að gamalli flokksskrifstofu ZANU-PF vopnaður prikum og grjóti. Fólkið hrópaði „Við viljum Chamisa“, en Nel­son Chamisa er er frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins Lýðræðishreyfingarinnar (MND). Sprautaði óeirðalögregla vatni á mannfjöldann og notaði táragas til að dreifa hópnum.

Stjórn­ar­and­stöðuflokk­ur­inn MDC seg­ir að brögð hafi verið í tafli í kosn­ing­un­um, en yfir­kjör­stjórn lýsti því yfir í dag að ZANU-PF hefði fengið yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta at­kvæða í þing­kosn­ing­un­um og hafi þegar tryggt sér yfir 150 þing­sæti af 210. MDC hafi tryggt sér um fjöru­tíu. 

Ekki liggur enn fyrir hver fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum, sem fóru fram samhliða þing- og sveitarstjórnarkosningum.

Hafa eftirlitsmenn kosningaeftirlits Evrópusambandsins lýst yfir áhyggjum af því hve langan tíma taki að telja atkvæði vegna forsetakosninganna.

Settur forseti, Emmerson Mnangagwa, sem er leiðtogi ZANU-PF, hefur hvatt kjósendur til að sýna þolinmæði.

Kosn­ing­arn­ar á mánu­dag eru þær fyrstu sem fram fara í land­inu eft­ir að Robert Muga­be, for­seti til 37 ára, lét af völd­um. Í tíð Muga­bes voru ásak­an­ir um kosn­inga­s­vindl tíðar og oft brut­ust út átök í tengsl­um við þær. Nú­ver­andi for­seti, Em­mer­son Mn­angagwa, og for­setafram­bjóðandi ZANU-PF, hef­ur heitið því að upp­ræta spill­ingu í land­inu og bauð því eft­ir­lit­steymi frá ESB að fylgj­ast með gangi kosn­ing­anna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert