Fordæma notkun hervalds í Harare

Herinn í Simbabve greip til vopna í dag, gegn mótmælendum úr röðum stjórnarandstæðinga. Þrír hafa látist, en gríðarleg ólga er í höfuðborginni Harare og víðar eftir að ljóst varð að stjórnarflokkurinn ZANU-PF hefði hlotið meirihluta í þingi landsins.

Stjórnarandstæðingar segja brögð vera í tafli og fordæma beitingu hervalds gegn mótmælendum.

Kosningaeftirlitsmenn frá Evrópusambandinu sögðu í dag að í mörgum tilfellum hefði undirbúningur, fjármögnun, fjölmiðlaumfjöllun en „vonandi ekki talning atkvæða“ verið stjórnarflokknum í hag. Þetta voru orð Elmars Brok, sem er æðsti kosningaeftirlitsmaður ESB í landinu.

Ekki er þó enn ljóst hver verður forseti landsins, en kosið var á mánudag, samhliða þingkosningum.

Nelson Chamisa, formaður stjórnarandstöðuflokksins MDC, hefur lýst yfir sigri í forsetakjörinu, en leiðtogi ZANU-PF og sitjandi forseti, Emmerson Mnangagwa, segist einnig bjartsýnn á sigur.

Átök dagsins í Harare kostuðu alla vega þrjá lífið.
Átök dagsins í Harare kostuðu alla vega þrjá lífið. AFP

Fordæma aðgerðir dagsins

Stjórnarandstöðuflokkurinn MDC hefur fordæmt aðgerðir hersins í dag og sagði talsmaður flokksins, Nkulueleko Sibanda, að skriðdrekar hefðu fyllt göturnar og skotið hefði verið á mótmælendur af engri ástæðu.

„Við fordæmum í hörðustu meiningu orðsins aðgerðirnar sem gripið var til í dag,“ sagði Sibanda við blaðamenn í Harare.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka