Höfða mál vegna fórnarlamba eldanna

Brunarústir húsa í Mati. Fjölskylda manns sem lést eftir að …
Brunarústir húsa í Mati. Fjölskylda manns sem lést eftir að verða innilyksa í bílskúr í eldunum hefur nú höfðað mál gegn grískum yfirvöldum. AFP

Ættingjar konu og manns sem létust í gróðureldunum í nágrenni Aþenu í síðustu viku hafa nú höfðað mál gegn yfirvöldum í fylkinu, slökkviliðinu og lögreglu vegna dauða þeirra.

Hefur Reuters-fréttastofan eftir heimildamanni innan dómskerfisins að yfirvöld gætu verið talin ábyrg til að mynda á grundvelli manndráps af gáleysi, vegna líkamstjóns og aðstæðnanna sem leiddu til dauða fórnarlambanna.

93 hið minnsta létust í eldunum sem kviknuðu á mánudagskvöld í og í nágrenni Aþenu. Bíl­ar og hús brunnu til kaldra kola í þess­um mann­skæðustu skóg­ar­eld­um í nú­tíma­sögu Evr­ópu. Fólk reyndi að flýja eld­ana ým­ist á hlaup­um eða í bíl­um sín­um og 26 manns, sem ekki tókst að kom­ast und­an, fund­ust í faðmlög­um í húsi í strand­bæn­um Mati um 40 kíló­metr­a norðaust­ur af Aþenu. 

Embætti gríska ríkissaksóknarans er nú með upptök eldanna til rannsóknar, sem og viðbrögð yfirvalda við eldunum.

Konan og maðurinn, sem höfðað hefur verið mál vegna, fundust bæði látin um 400 metra frá heimilum sínum eftir að hafa reynt að flýja eldana.

Karlmaðurinn var 70 ára kennari sem lokaðist inni í bílskúr þegar kona hans og vinir þeirra, sem voru í heimsókn frá Bandaríkjunum, reyndu að komast undan eldunum til sjávar.

Tveimur dögum áður en hörmungarnar riðu yfir voru þau öll að fagna brúðkaupi dóttur hans hefur Reuters eftir lögfræðingi fjölskyldunnar.

Grísk stjórnvöld hafa sagt vísbendingar um að um íkveikju hafi verið að ræða og staðfesti gríska lögreglan í dag að einn hefði verið handtekinn og sætti nú yfirheyrslum vegna eldanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert