Samskipti Bandaríkjanna og Tyrklands hafa ekki verið á uppbyggilegum nótum í dag, eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti að refsiaðgerðum yrði beitt gegn tveimur tyrkneskum ráðherrum sökum þess að Tyrkir halda enn bandaríska prestinum Andrew Brunson í varðhaldi.
Eignir dómsmála- og innanríkisráðherra Tyrklands innan bandarískrar lögsögu hafa verið frystar og bandarískum aðilum bannað að eiga í viðskiptum við þá.
Bandaríski presturinn sem þetta allt snýst um hefur verið í haldi tyrkneskra yfirvalda í nærri tvö ár, grunaður um tengsl við Gulen-hreyfinguna og PKK, Verkamannaflokk Kúrda, en báðir hópar eru flokkaðir sem hryðjuverkahópar. Brunson var handtekinn eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi árið 2016.
Sarah Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði í dag að varðhaldið væri ósanngjarnt, en yfirvöld í Bandaríkjunum hafa krafist þess að fá prestinn sendan heim. „Við höfum ekki séð nein sönnunargögn þess efnis að hann hafi gert eitthvað af sér,“ sagði hún sömuleiðis við fjölmiðla í dag.
Sanders sagði sömuleiðis að forsetar landanna, Trump og Erdogan, hefðu rætt málið margoft, en auðsjáanlega án árangurs. Í síðustu viku varaði Trump Tyrki við því að það myndi hafa afleiðingar ef Brunson yrði ekki sleppt úr haldi undir eins.
Tyrkir vilja fá múslimaklerkinn Fethulleh Gulen framseldan í stað Brunson, en á það hafa bandarísk yfirvöld ekki fallist. Erdogan og hans félagar í Tyrklandi telja Gulen á bak við valdaránstilraunina árið 2016.
Kröfur Bandaríkjamanna um að fá prestinn sendann heim segja Tyrkir með öllu óásættanlegar og í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Tyrklands í dag kom fram að þarlend yfirvöld myndu bregðast við þessum „óvinveittu“ refsiaðgerðum gagnvart ráðherrunum tveimur.
Í yfirlýsingunni kom einnig fram að aðgerðir Bandaríkjastjórnar væru til þess fallnar að varpa rýrð á samband þjóðanna.
„Það er enginn vafi á því að þetta mun skemma fyrir uppbyggilegum tilraunum til þess að leysa vandamálin í sambandi ríkjanna tveggja,“ sagði í yfirlýsingunni.
Tyrkneska líran féll nokkuð gegn bandaríkjadal eftir að Bandaríkin tilkynntu um refsiaðgerðir sínar í dag, eða um 1,6%.