Flokkurinn ZANU-PF hlaut flest þingsæti í kosningunum í Simbabve sem fram fóru í fyrradag. Stjórnarandstöðuflokkurinn MDC segir að brögð hafi verið í tafli í kosningunum. Yfirkjörstjórn lýsti því yfir í dag að ZANU-PF hefði fengið yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í þingkosningunum og hafi þegar tryggt sér yfir 150 þingsæti af 210. MDC hafi tryggt sér um fjörutíu.
Talsmenn MDC hafa ekki tjáð sig um þá niðurstöðu en höfðu fyrr í morgun sagt að svindlað hefði verði í kosningunum. Kosið var samtímis til forseta í landinu og stendur talning atkvæða yfir. Forsetaframbjóðandi MDC segir að verið sé að undirbúa svindl í þeim líka.
Kosningaeftirlitsteymi Evrópusambandsins á enn eftir að birta skýrslu sína um kosningarnar í Simbabve og verður það gert síðar í dag.
Kosningarnar á mánudag eru þær fyrstu sem fram fara í landinu eftir að Robert Mugabe, forseti til 37 ára, lét af völdum. Í tíð Mugabes voru ásakanir um kosningasvindl tíðar og oft brutust út átök í tengslum við þær. Núverandi forseti, Emmerson Mnangagwa, og forsetaframbjóðandi ZANU-PF, hefur heitið því að uppræta spillingu í landinu og bauð því eftirlitsteymi frá ESB að fylgjast með gangi kosninganna.