Hermenn rýmdu götur í Harare

Tveir hermenn hrópa að kaupmönnum í Harare í morgun.
Tveir hermenn hrópa að kaupmönnum í Harare í morgun. AFP

Hermenn og lögreglumenn rýmdu götur í miðborg Harare, höfuðborgar Simbabve, í morgun en í gær voru þrír mótmælendur úr röðum stjórnarandstæðinga skotnir til bana.

Hermenn með árásarriffla og lögreglumenn hrópuðu að gangandi vegfarendum og kaupmönnum að yfirgefa miðborgina og hefur fyrirtækjum þar verið lokað.

Ökumaður les dagblaðið. Fyrir aftan hann er auglýsingaskilti með mynd …
Ökumaður les dagblaðið. Fyrir aftan hann er auglýsingaskilti með mynd af stjórnarandstöðuleiðtoganum Nelson Chamisa. AFP

Yfirvöld í Simbabve hafa hvatt almenning til að sýna þolinmæði en beðið er eftir niðurstöðu úr forsetakosningunum þar í landi. Samhliða þeim fóru fram þingkosningar.

Yfirkjörstjórn Simbabve hefur lýst því yfir að Zanu-PF, flokkur Emmerson Mnangagwa, forseta landsins, hafi borið sigur úr býtum í þingkosningunum með tvo þriðju hluta atkvæða.

Nelson Chamisa, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að brögð hafi verið í tafli í kosningunum.

Hermenn fyrir utan höfuðstöðvar stjórnarandstöðuflokksins MDC.
Hermenn fyrir utan höfuðstöðvar stjórnarandstöðuflokksins MDC. AFP

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt stjórnmálamenn í Simbabve til að sýna stillingu. Bandaríska sendiráðið í Harare hvatti einnig til stillingar og sagði að þjóðin hefði „sögulegt tækifæri“ til að öðlast bjarta framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert