Emmerson Mnangwa, sitjandi forseti í Simbabve, hlaut meirihluta atkvæða í forsetakosningunum í Simbabve. Yfirkjörstjórn landsins greindi frá því í kvöld að Mnangwa hlaut 50,8 prósent atkvæða en Nelson Chamisa 44,3 prósent.
Þar sem Mnangwa hlaut meira en helming atkvæða þarf ekki að grípa til annarrar umferðar í kosningunum, sem eru þær fyrstu síðan fyrrverandi forseta landsins, Robert Mugabe, var steypt af stóli í fyrra. Mnangagwa tók við embætti forseta Simbabve í desember eftir fráhvarf Mugabe og skipaði hann nýja stjórn í landinu sem var að mestu skipuð ráðherrum sem fyrir voru í stjórn fyrrverandi forsetans.
Þing- og forsetakosningar fóru fram á mánudag og hafa kjósendur beðið í ofvæni eftir niðurstöðum. Hermenn og lögreglumenn rýmdu götur í miðborg Harare, höfuðborgar Simbabve, í morgun en í gær voru þrír mótmælendur úr röðum stjórnarandstæðinga skotnir til bana.
Nelson Chamisa, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir að brögð hafi verið í tafli í kosningunum.