„Líkurnar á að ekki verði neinn samningur eru á þessum tímapunkti óþægilega miklar,“ sagði Mark Carney, seðlabankastjóri Englandsbanka, í viðtali hjá BBC í dag. Að mati bankans væri óæskilegt að Bretlandi gangi úr Evrópusambandinu án þess að gerður sé samningur við sambandið sem myndi draga úr mögulegri röskun á viðskiptum.
Carney sagði þó líkurnar á því að ekki verði gerður samningur heldur litlar, en væru til staðar. Afleiðingar þess yrðu að það yrði röskun á viðskiptum og þar af leiðandi hefði það áhrif á efnahagsvöxt og verðlag, staðhæfði hann. Carney tók þó fram að það yrði á afmörkuðum tíma, en tók ekki fram hversu langt tímabil það yrði.
Tilefni þessara ummæla Carney er umræðan í Bretlandi um hvort tillögur Theresu May, forsætisráðherra, að Brexit-samkomulagi sé vísan að nægilega hagstæðum samningi við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands úr sambandinu.
Þeir sem hafa gagnrýnt tillögur May hafa sagt betra að yfirgefa Evrópusambandið án þess að gera sérstakan samning og stunda viðskipti við sambandið á grundvelli reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), en að ganga að tillögum May.
Í viðtalinu spyr útvarpsmaður BBC Carney hvort „Brexit án samnings yrði hörmung (e. disaster)?“ Þessu svarar Carney hvorki játandi né neitandi, en segir „það væri mjög óæskilegt.“
Fyrrverandi ráðherra vinnumála og lífeyris, Iain Duncan Smith, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt orð Carney og sagt hann ala á ótta. „Það er ekkert til sem heitir enginn samningur, það fyrirkomuleg sem verður mun þurfa að byggja á regluverki WTO, enda Bretland og Evrópusambandið þegar aðilar að þeim samningum.“ Smith bætti við að „enginn samningur er orðræða óttans (e. project fear)“.
Hagfræðingurinn Ruth Lea, hjá Arbuthnot Banking Group, tísti að Carney væri að „kalla úlfur, úlfur, fáir munu hlusta“.
Brexit-samkomulag May hefur valdið miklum usla meðal stuðningsmanna Brexit og íhaldsflokksins. Í nýlegri könnun Sky-fréttastofunnar sögðust aðeins 22% þeirra sem greiddu atkvæði með Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni styðja áform May, og aðeins 21% stuðningsmanna Íhaldsflokksins.
Boris Johnson, þingmaður Íhaldsflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði af sér sem utanríkisráðherra á þeim grundvelli að hann styddi ekki Brexit-áform ríkisstjórnarinnar. Hann lýsti því yfir á breska þinginu í síðasta mánuði að enn væri hægt að bjarga Brexit. Sagði hann Theresu May hafa stýrt málinu illa og skapað óþarfa óvissu.