Flestir taílensku drengjanna, sem bjargað var úr Tham Luang-hellunum í Norður-Taílandi um miðjan júlí, eru komnir til síns heima eftir að hafa varið níu dögum í klaustri. Hefð er fyrir því að taílenskir karlmenn sem lenda í ógöngum geri slíkt og tóku allir drengirnir tólf þátt, nema einn sem er kristinn. Þjálfari drengjanna mun dvelja áfram í klaustrinu í þrjá mánuði.
Drengirnir fóru beint af spítalanum í klaustrið og eru því fyrst núna að snúa heim eftir fótboltaæfinguna örlagaríku hjá Villigöltunum 23. júní.
Klausturdvölin var hugsuð sem andleg hreinsun fyrir drengina. Hluti af hreinsuninni fólst í að raka af þeim hárið að sið búddamunka. Dvölin var einnig hugsuð sem virðingarvottur fyrir taílenska kafarann Saman Gunan sem lét lífið í björgunaraðgerðunum.
Yfirvöld í Taílandi hafa beðið fjölmiðla að veita drengjunum og fjölskyldum þeirra tilfinningalegt svigrúm þegar þeir reyna að aðlagast hversdagslífinu á nýjan leik.