22 farast í jarðskjálfta á Lombok

Sjúklingar á sjúkrahúsinu í höfuðborginni Mataram biðu framan við spítalann …
Sjúklingar á sjúkrahúsinu í höfuðborginni Mataram biðu framan við spítalann sem var rýmdur í kjölfar jarðskjálftans í dag. AFP

22 hið minnsta létu lífið í kröftugum jarðskjálfta sem varð á indónesísku eyjunni Lombok í dag, samkvæmt upplýsingum frá indónesískum yfirvöldum. Skjálftinn mældist 7 stig og olli skemmdum á  byggingum og rafmagnsleysi í nokkrum hverfum höfuðborgarinnar Mataram. Þá varð jarðskjálftans einnig vart á nágrannaeyjunni Balí.

Gefin var út flóðbylgjuviðvörun í kjölfar jarðskjálftans, en henni var aflétt nokkrum tímum síðar.

Aðeins vika er síðan 17 létu lífið í jarðskjálfta á eyj­unni, sem er vin­sæll ferðamannastaður. Sá skjálfti var 6,4 að stærð og olli skemmd­um á hundruðum bygg­inga. 

Skjálft­inn í dag á upp­tök sín á um tíu kíló­metra dýpi und­ir eyj­unni. Íbúar og ferðamenn á eyj­unni hafa verið beðnir um að koma sér sem lengst frá sjón­um.

Rúmlega 50 slösuðust í skjálftanum í dag og mik­il skelf­ing greip um sig er hans varð vart. „All­ir hlupu eins og skot út af heim­il­um sín­um, það var mikið óðagot,“ hef­ur AFP-frétta­stof­an eft­ir íbúa á eyj­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert