82 hið minnsta fórust og hundruð slösuðust í öflugum jarðskjálfta sem varð á indónesísku eyjunni Lombok í dag, samkvæmt upplýsingum frá indónesískum yfirvöldum. Skjálftinn mældist 7 stig og olli skemmdum á byggingum og rafmagnsleysi í nokkrum hverfum höfuðborgarinnar Mataram. Þá varð jarðskjálftans einnig vart á nágrannaeyjunni Balí.
Gefin var út flóðbylgjuviðvörun í kjölfar jarðskjálftans, en henni var aflétt nokkrum tímum síðar, að því er BBC greinir frá.
Aðeins vika er síðan 17 létu lífið í jarðskjálfta á eyjunni, sem er vinsæll ferðamannastaður. Sá skjálfti var 6,4 að stærð og olli skemmdum á hundruðum bygginga.
Skjálftinn í dag á upptök sín á um tíu kílómetra dýpi undir eyjunni. Íbúar og ferðamenn á eyjunni hafa verið beðnir um að koma sér sem lengst frá sjónum.
Mikil skelfing greip um sig er jarðskjálftans varð vart. „Allir hlupu eins og skot út af heimilum sínum, það var mikið óðagot,“ hefur AFP-fréttastofan eftir íbúa á eyjunni.