Öflugur jarðskjálfti, 7 að stærð, reið yfir eyjuna Lombok á Indónesíu fyrir skömmu. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út í kjölfarið. Engar fregnir hafa borist af manntjóni enn sem komið er.
Aðeins vika er síðan 17 létu lífið í jarðskjálfta á eyjunni, sem er vinsæll ferðamannastaður. Sá skjáfti var 6,4 að stærð og skemmdust hundruð bygginga í skjálftanum.
Skjálftinn í dag á upptök sín á um tíu kílómetra dýpi undir eyjunni. Íbúar og ferðamenn á eyjunni hafa verið beðnir um að koma sér sem lengst frá sjónum.
Mikil skelfing greip um sig þegar skjálftinn varð. „Allir hlupu eins og skot út af heimilum sínum, það var mikið óðagot,“ hefur AFP-fréttastofan eftir íbúa á eyjunni.