Flytja ferðamenn á brott eftir skjálftann

Ferðamenn bíða eftir að verða fluttir frá Gili-eyjum, vinsælum ferðamannastað …
Ferðamenn bíða eftir að verða fluttir frá Gili-eyjum, vinsælum ferðamannastað í nágrenni við Lombok þar sem öflugur jarðskjálfti varð í gær. AFP

Stjórnvöld í Indónesíu vinna að því að koma um 1.200 ferðamönnum frá Gili-eyjum, vinsælum ferðamannastað, eftir að jarðskjálfti varð á eyjunni Lombok, sem er í nágrenni við eyjarnar, í gær.

Tala látinna fer hækkandi og að minnsta kosti 91 er látinn eftir skjálftann, sem var 6,9 að stærð, og 209 eru alvarlega slasaðir. Skjálftinn vakti mikinn óhug meðal heimamanna en aðeins vika er síðan 17 létu lífið í skjálfta á eyjunni sem mældist 6,4 að stærð.

Björgunarfólk vinnur nú að því að leita í rústum byggina sem hrundu í skjálftanum. Skjálftinn olli skemmd­um á  bygg­ing­um og raf­magns­leysi í nokkr­um hverf­um höfuðborg­ar­inn­ar Mat­aram. Þá varð jarðskjálft­ans einnig vart á ná­granna­eyj­unni Balí. Um 20.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín á Lombok vegna skjálftans. 

„Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Vegirnir eru skemmdir, þrjár brýr eru skemmdar, það er erfitt að komast milli staða og við höfum ekki nægan mannafla,“ segir Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður almannavarna í Indónesíu.

Gili-eyjarnar þrjár eru vinsæll viðkomustaður bakpokaferðalanga og kafara.
Gili-eyjarnar þrjár eru vinsæll viðkomustaður bakpokaferðalanga og kafara. AFP

Íslendingur á Gili: „Þetta var hræðilegt“

Margrét Helgadóttir er stödd á Gili Air, sem er ein þriggja ferðamannaeyjanna vinsælu, og lýsir hún því við AFP-fréttastofuna að mikil skelfing hafi gripið um sig þegar skjálftinn reið yfir en þakið á hótelinu þar sem hún dvelur hrundi í skjálftanum. „Við frusum bara, en til allrar hamingju vorum við fyrir utan hótelið,“ segir Margrét, sem hefur nú verið flutt til Lombok eins og um 350 ferðamenn. „Allt varð svart, þetta var hræðilegt.“ Enn á eftir að flytja um 900 manns frá eyjunum. 

„Það er skiljanlegt að ferðamennirnir vilji yfirgefa Gili-eyjarnar, þau eru óttaslegin,“ segir Nugroho.  

Mikil eyðilegging varð í skjálftanum.
Mikil eyðilegging varð í skjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert