Brothætt sátt í Suður-Súdan

Íbúar í höfuðborginni Juba í Suður-Súdan fagna friðarsamkomulaginu með dansi …
Íbúar í höfuðborginni Juba í Suður-Súdan fagna friðarsamkomulaginu með dansi og söng. AFP

Misklíð þeirra hefur valdið blóðugum átökum í Suður-Súdan en nú segjast erkifjendurnir Salva Kiir og Riek Machar ætla að reyna að deila völdum og ætla að gera enn eina tilraunina til að semja um frið í þessu yngsta ríki heims.

Skrifað var undir samkomulag milli stríðandi fylkinga á sunnudag í Khartoum, höfuðborg nágrannalandsins Súdans, en yfirvöld þar hafa reynt að miðla málum. Í kjölfarið brutust út fagnaðarlæti í Juba, höfuðborg Suður-Súdans, m.a. í flóttamannabúðum sem þar hafa sprottið upp í borgarastyrjöldinni sem nú hefur staðið í um fimm ár. 

Sérfræðingar í málefnum landsins vara við of mikilli bjartsýni og segja að mörg ljón séu enn í veginum. Von er nú á uppreisnarleiðtoganum Machar aftur til landsins eftir útlegð en hann á samkvæmt samkomulaginu að taka við varaforsetaembætti á ný.

Uppreisnarleiðtoginn Riek Machar er að margra mati frelsishetja mikil. Suður-Súdanar …
Uppreisnarleiðtoginn Riek Machar er að margra mati frelsishetja mikil. Suður-Súdanar eru klofnir í afstöðu sinni til stjórnvalda í landinu. AFP

Að fá þá Machar og Kiir forseta til að vinna saman er flókið og hingað til hafa allar slíkar tilraunir runnið fljótt út í sandinn og átök blossað upp af krafti á nýjan leik.

„Þetta á eftir að verða mjög erfitt því Kiir forseti gaf það út á fundum að hann vildi ekki vinna með Machar,“ segir embættismaður í Suður-Súdan í samtali við AFP-fréttastofuna í skjóli nafnleysis. „Það hefur þurft að snúa rækilega upp á höndina á honum til að ná þessum samningi aftur.“

Kiir og Machar eru báðir fyrrverandi leiðtogar uppreisnarhópa og komust til valda í borgarastríðinu í Súdan á árunum 1983-2005. Þeir voru ekki alltaf samherjar í því stríði en upp úr því fékk Suður-Súdan sjálfstæði sitt árið 2011. 

Þeir fara fyrir tveimur stærstu þjóðflokkum Suður-Súdans; Kiir er leiðtogi Dinka og Machar leiðtogi Nuer-þjóðarinnar.

Kiir varð forseti landsins við stofnun ríkisins og Machar varaforseti. En stjórnin var skammlíf og árið 2013 sakaði Kiir Machar um að ætla að ræna sig völdum. Þá hófst blóðug borgarastyrjöld. Hundruð þúsunda hafa fallið og milljónir lagt á flótta. 

Salva Kiir (t.h.) og Riek Machar skrifa undir friðarsamkomulagið í …
Salva Kiir (t.h.) og Riek Machar skrifa undir friðarsamkomulagið í Súdan á sunnudag. AFP

Árið 2016 var gert friðarsamkomulag sem þýddi að þeir voru aftur komnir saman í ríkisstjórn. En aðeins fáum mánuðum eftir að Machar sneri aftur til Juba brutust út mikil átök sem varð til þess að hann lagði fótgangandi á flótta til Austur-Kongó.

„Ég veit ekki hvernig, með allt þetta ofbeldi, er hægt er að mynda trausta og starfhæfa ríkisstjórn,“ segir Ahmed Soliman, sem rannsakað hefur hið pólitíska landslag í Suður-Súdan og víðar í þessum heimshluta.

Átökin sem blossuðu upp árið 2016 voru verri en nokkru sinni fyrr og valdalínurnar flóknari en áður þar sem nýir uppreisnarhópar skutu upp kollinum og blóðbaðið magnaðist enn frekar. Þá brast á hungursneyð og mikill fólksflótti vegna hungurs og átaka. 

Stjórnvöld í Úganda og Súdan leiða friðarviðræðurnar nú. Súdanar hafa hagsmuna að gæta því þeir þurfa á olíuviðskiptum við Suður-Súdan að halda. Olíu er að finna í norðurhluta Suður-Súdans en olíuleiðslan liggur um Súdan. Það væri því beggja hagur að sáttir næðust og viðskiptasamband kæmist aftur á. 

Milljónir manna eru á flótta í Suður-Súdan. Flestir eru á …
Milljónir manna eru á flótta í Suður-Súdan. Flestir eru á vergangi innan landsins en hundruð þúsunda hafa flúið til nágrannalandanna, aðallega til Úganda. AFP

Viðskiptasamstarf um olíuna er eitt þeirra atriða sem ítrekað hefur verið fjallað um í friðarsamningum síðustu árin en hingað til hafa stjórnvöld í Suður-Súdan ekki nýtt peningana til að byggja upp efnahag landsins heldur til að efla hernað sinn í borgarastríðinu. 

Eftir því sem stríðið hefur dregist á langinn hafa fleiri uppreisnarhópar orðið til sem allir vilja völd. Því eru nú fimm varaforsetar í ríkisstjórninni, 35 ráðherrar og á þingi eiga 550 manns sæti.

Machar á samkvæmt friðarsamkomulaginu að verða fyrsti varaforseti. Óttast er að þó að hann hafi skrifað undir það muni hann ekki fara eftir því. Sömu sögu er að segja um Kiir. Hann hefur heitið því að láta samkomulagið ekki „hrynja“ en hefur þegar lýst yfir efasemdum sínum um hina nýju ríkisstjórn og hvernig hún verði fjármögnuð. „Þeir þurfa öryggiseftirlit, þeir þurfa farartæki, þeir þurfa hús. Þetta eru fimm varaforsetar, það verður mikil ábyrgð að stjórna þessu öllu,“ segir Kiir. 

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa sent neyðaraðstoð til Suður-Súdan þar sem …
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa sent neyðaraðstoð til Suður-Súdan þar sem hungursneyð hefur geisað á ákveðnum svæðum. AFP

Endanleg útfærsla friðarsamkomulagsins er ekki í höfn. Stjórnvöld í Suður-Súdan hafa nú þrjá mánuði til að ganga frá henni og þar með nýrri ríkisstjórn sem á að fara með völd í landinu næstu þrjú árin.

Frá því samið var um vopnahlé 27. júlí hefur dregið úr ofbeldi í landinu sem margir telja vísbendingu um að stríðandi fylkingar séu ákveðnari en áður í að koma á friði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert