Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ætlar að skera upp herör gegn ósamþykktum húsum. Ókláruð og ósamþykkt hús hafa í áratugi verið mikið vandamál í Grikklandi.
Tilefnið eru skæðir gróðureldar sem urðu 91 að bana í lok síðasta mánaðar en Tsipras segir manntjónið hafa orðið meira en ella hefði orðið vegna ólöglegra húsa. „Óreiðan sem fylgir þessum ólöglegu byggingum stefnir lífi og limum fólks í hættu. Þetta verður ekki umborið lengur,“ sagði Tsipras eftir fund sem hann átti með ráðherrum og svæðisstjórum í Grikklandi.
Ríkisstjórn Tsipras hefur sætt harðri gagnrýni vegna viðbragðsins við eldunum miklu, en aldrei hefur orðið eins mikið manntjón af völdum gróðurelda í sögu landsins.
„Það sem rústar skógum og ströndum, og skapar hættu, verður rifið niður. Það er mikilvægt af virðingu við hina látnu en nauðsynlegt fyrir þá sem lifðu,“ sagði Tsipras.
Fjórir háttsettir ráðamenn voru látnir fjúka vegna eldsvoðans, þar á meðal ráðherra almannavarna, slökkviliðsstjóri og lögreglustjóri. Viðbragð lögreglu og slökkviliðs var lélegt og var samskiptum ábótavant milli viðbragðsaðila. Slökkvilið lét lögreglu ekki vita nægilega vel hvar eldurinn væri sem varð til þess að fólki var beint á röng svæði við rýmingu vegna eldsvoðans.