Ísraelar gerðu árásir á Gaza í nótt eftir að 150 eldflaugum var skotið þaðan og yfir landamærin að Ísrael. Þrír Palestínumenn féllu í árásunum, m.a. ungt barn.
Flestar flaugar Palestínumanna lentu á opnum svæðum en að minnsta kosti tvær í bænum Sderot skammt handan landamæranna. Viðvörunarflautur voru í gangi í alla nótt og flúðu margir í neðanjarðarbyrgi.
Talið er að í það minnsta fjórir hafi verið fluttir á sjúkrahús í Ísrael, m.a. þrítug taílensk kona.
Meðal þeirra sem féllu á Gaza var 23 ára gömul móðir, Enas Khammash, og átján mánaða gömul dóttir hennar, Bayan, að því er heilbrigðisyfirvöld á Gaza segja. Þau segja að Khammash hafi verið ólétt og að eiginmaður hennar hafi særst í árásunum.
Þetta er í þriðja sinn síðan í júlí sem átök brjótast út milli Ísraela og Palestínumanna þrátt fyrir að yfir standi viðræður um vopnahlé.