Monsanto, stærsti efnaframleiðandi til landbúnaðar í Bandaríkjunum, hefur verið dæmt til að greiða manni 289 milljónir dala, sem samsvarar rúmum 30 milljörðum kr., í skaðabætur. Maðurinn hélt því fram að hann hefði fengið krabbamein eftir að hafa notað plöntueyði sem innihélt glýfosat.
Dómsmálið þykir marka tímamót. Fram kemur á vef BBC, að kviðdómur í Kaliforníu hafi komist að þeirri niðurstöðu að forsvarsmenn Monsanto hafi vitað að gróður- og illgresiseyðar fyrirtækisins, Roundup og RangerPro, hafi verið hættulegir og að fyrirtækið hafi ekki varað almenning við þeirri hættu sem af þeim stafaði.
Þetta er fyrsta málshöfðunin þar sem dómstóll tekur á því hvort tengsl séu á milli þess að glýsfosat geti valdið krabbameini.
Monsanto neitar því alfarið að glýsfosat geti valdið krabbameini og hyggst áfrýja niðurstöðunni.
Dewayne Johnson, sem höfðaði málið, er á meðal 5.000 annarra sem hafa haldið þessu fram í Bandaríkjunum. Johnson starfar sem garðyrkjumaður skóla í Benicia í Kaliforníu. Hann notaði reglulega illgresiseyðinn RangerPro við sín störf. Hann greindist með krabbamein og er dauðvona.
Búist er við að niðurstaðan muni leiða til þess að fleiri muni höfða mál gegn Monsanto sem þýska samsteypan Bayer AG keypti nýverið.