„Ég vil biðja þau öll afsökunar“

Á myndinni sést reykur stíga til himins frá þeim stað …
Á myndinni sést reykur stíga til himins frá þeim stað þar sem vélin brotlenti á eyjunni Ketron í Washington-ríki. AFP

„Ég er ekki reiðubúinn að lenda henni alveg strax,“ sagði flugmaðurinn, sem er aðeins nefndur á nafn sem Richard, í samtali við flugumferðarstjóra sem reyndi að fá hann til að lenda flugvél sem hann stal á alþjóðaflugvellinum í Seattle í gærkvöldi og flaug af stað í heimildarleysi.

Málið hefur vakið mikla athygli en maðurinn, sem var 29 ára gamall flugvirki, lést þegar hann brotlenti vélinni á eyju skammt frá. Enginn annar var um borð í vélinni, en hún var með sæti fyrir 76 farþega. 

AFP-fréttastofan greinir frá því að maðurinn hafi verið spenntur, ringlaður og stundum afar rólegur þegar hann ræddi við flugumferðarstjóra í flugturni vallarins. 

Hann stal tveggja hreyfla Bombardier Q400-vél sem var í eigu Horizon Air um kl. 20 að staðartíma í gærkvöldi (um kl. 3 í nótt).  

Tvær F-15 orrustuþotur voru sendar á vettvang í kjölfar atviksins. Sjónarvottar hafa myndað það þegar Richard flaug vélinni heilan hring og sveif svo rétt fyrir ofan sjóinn. Flugferðin stóð í um einn og hálfan tíma áður en hún brotlenti. 

Lögreglan segir að Richard hafi verið í sjálfsvígshugleiðingum. Samtal Richards við flugturninn þykir þó varpa fram flóknari mynd.https://www.seattletimes.com/seattle-news/airplane-taken-from-seattle-tacoma-international-airport-has-crashed/

Dagblaðið The Seattle Times hefur birt upptökuna á milli Richard og flugturnsins. Þar segir hann að hann ætli sér að skoða Ólympíufjöllin. Í framhaldinu fer hann að tjá sig um eldsneytiseyðslu vélarinnar, að hún væri að eyða mun meiru en hann átti von á. 

Vélinni var stolið um kl. 20 að staðartíma í gærkvöldi …
Vélinni var stolið um kl. 20 að staðartíma í gærkvöldi og stóð flugferðin yfir í um 90 mínútur. AFP

Flugumferðarstjórinn biður hann vinsamlegast um að lenda á nærliggjandi herflugvelli. 

„Ó, maður,“ svarar Richard. „Þessir náungar munu taka hart á mér reyni ég að lenda þar [...] þeir eru án efa með loftvarnir.“

Flugumferðarstjórinn segir við Richard að ekkert í þá veru sé á vellinum. „Við erum einfaldlega að reyna að finna öruggan stað fyrir þig til að lenda á.“

Ég er ekki reiðubúinn að lenda henni alveg strax,“ svarar Richard.

„Þetta er örugglega fangelsi fyrir lífstíð, ekki satt?“ spyr hann svo. „Ég myndi ætla að það sé fyrir náunga eins og mig.“

Flugumferðarstjórinn biður hann þá um að vera ekkert að hugsa út í það. „Gætirðu hins vegar verið svo vænn að beygja til vinstri,“ spyr flugumferðarstjórinn. 

Síðar segir Richard: „Ég á marga að sem þykir vænt um mig. Þau verða vonsvikin að heyra að ég hafi gert þetta. Ég vil biðja þau öll afsökunar. Ég er bara brotinn náungi, með nokkrar lausar skrúfur, geri ég ráð fyrir. Vissi það í raun ekki fyrr en nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert