Yfirvöld á Indónesíu segja að tala þeirra sem létust í jarðskjálftanum sem reið yfir eyjuna Lombok um síðustu helgi sé komin í 387. Fjölmargir eru enn heimilislausir og víða er skortur á hreinu vatni, mat og lyfjum.
Skjálftinn varð sl. sunnudag. Hann mældist 6,9 að stærð og jafnaði hann mörg þúsund heimili við jörðu á eyjunni. Viku fyrir stóra skjálftann varð annar skjálfti sem varð 17 að bana.
Talsmaður almannavarna í landinu telur að tala látinna eigi eftir að hækka. Mörg lík eigi eftir að finnast sem liggi grafin í rústum húsa og aur, en aurskriður féllu víða í kjölfar hamfaranna.
Hátt í 390.000 hafa þurft að flýja heimili sín. Þá hafa um 13.000 manns slasast.
Norðurhluti Lombok varð verst úti í skjálftanum. Þar létust 334 og tæplega 200.000 eru án heimilis.