Ivanka Trump: Ekkert pláss fyrir nýnasisma í Bandaríkjunum

Ivanka Trump, dóttir Trumps Bandaríkjaforseta, sést hér hlusta á föður …
Ivanka Trump, dóttir Trumps Bandaríkjaforseta, sést hér hlusta á föður sinn ræða málin á ríkisstjórnarfundi í júlí. AFP

Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og ráðgjafi forsetans, fordæmdi með afdráttarlausum hætti í gær hvers kyns rasisma, nýnasisma og yfirburði hvítra einstaklinga yfir öðrum kynþáttum. Athygli vakti að Ivanka tjáði sig með hætti sem faðir hennar hefur hingað til ekki viljað gera. 

Þetta kom fram í færslu sem hún birti á Twitter í tengslum við að eitt ár var í gær liðið frá fjöldafundi hvítra þjóðernissinna sem fór fram í borginni Charlottesville í Virginíu í Bandaríkjunum, þar sem 32 ára gömul kona lést og á annan tug særðist.

Búið er að skipuleggja svipaðan fund fyrir utan Hvíta húsið í Washington í dag. 

„Fyrir einu ári í Charlottesville urðum við vitni að ógeðfelldu hatri, rasisma, ofstæki og ofbeldi,“ skrifaði hún.

„Á meðan Bandaríkjamenn njóta þeirrar blessunar að búa í landi þar sem frelsið nýtur verndar sem og réttur manna til að tjá sig og skiptast á ólíkum skoðunum, þá er ekkert pláss fyrir hvíta þjóðernishyggju, rasisma og nýnasisma í okkar góða landi.“

Hún hvatti landsmenn enn fremur til að standa saman í stað þess að rífa hver annan niður í hatri, rasisma og ofbeldi. Með samstöðu sé hægt að styrkja samfélög og gefa landsmönnum tækifæri til að blómstra.

Twitter-færsla Ivönku Trump vakti sérstaka athygli því Donald Trump var harðlega gagnrýndur eftir atvikið í Charlottesville þegar hann kom sér hjá því að fordæma þá sem stóðu að fjöldafundinum í borginni.

Trump sagði að hið besta fólk væri að finna á meðal þeirra líkt og hjá þeim sem komu til að mótmæla rasisma. 

Ivanka Trump og Donald Trump sjást hér ávarpa samkomu í …
Ivanka Trump og Donald Trump sjást hér ávarpa samkomu í Granite City í Illinois í síðasta mánuði. AFP

Tveimur dögum síðar, eftir að hafa þurft að þola mikla gagnrýni, sagði Trump að rasismi væri af hinu illa og þeir sem beita aðra ofbeldi út af kynþáttahatri væru einfaldalega glæpamenn og óþokkar. Hann vísaði þar m.a. til þjóðernissamtakanna Ku Klux Klan, nýnasista og hvítra þjóðernissinna, sem og aðra hópa sem spúa hatri. 

Í gær birti Trump færslu á Twitter þar sem hann fordæmdi atburðina í Charlottesville á mjög almennan hátt. Hann sagði að óreirðirnar í borginni hefðu leitt til dauða og ósamstöðu, sem hefði verið glórulaust. 

„Við þurfum að standa saman sem þjóð. Ég fordæmdi allar gerðir af rasisma og ofbeldisverk. Megi allir Bandaríkjamenn lifa í friði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert