Fjölskylda flugmannsins miður sín

Skjáskot úr myndskeiði sem sjónarvottur tók af flugi Richard Russell …
Skjáskot úr myndskeiði sem sjónarvottur tók af flugi Richard Russell á föstudagskvöld. AFP

Fjölskylda mannsins sem stal flugvél á alþjóðaflugvellinum í Seattle á föstudag segist vera orðlaus og miður sín vegna atviksins, en flugferð mannsins endaði með því að vélin brotlenti á eyju með þeim afleiðingum að maðurinn, sem var einn um borð, lést. 

Fjölskylda mannsins, sem hét Richard Russell, kallaður Beebo af vinum og vandamönnum, sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær, að því er fram kemur á vef BBC.

Vélar í eigu Alaska Airlines, sem reka Horizon Air, sjást …
Vélar í eigu Alaska Airlines, sem reka Horizon Air, sjást hér á flugvellinum í Seattle. AFP

Russell var 29 ára gamall. Fram hefur komið að hann starfaði á flugvellinum fyrir Horizon Air, en vélin sem hann flaug var í eigu félagsins. Hann var með fulla heimild til að vera á flugvellinum á föstudagskvöld, en það var um kl. 20 að staðartíma þegar hann fór upp í vélina og flaug af stað án heimildar frá flugturni. Hann hafði unnið hjá Horizon Air í um þrjú ár, en hann vann m.a. við þrif, flutning á farangri og að færa flugvélar á milli staða á vellinum.


„Fólk sem er að fylgjast með á eflaust bágt með að trúa því, en Beebo var hlýr og góður maður,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar. Hann hafi verið góður eiginmaður, sonur og vinur. 

Russell bjó í Sumner í Washington-ríki. Hann fæddist á Key West í Flórída og flutti með fjölskyldu sinni til Wasilla í Alaska-ríki þegar hann var sjö ára gamall. 

Fyrrverandi samstarfsmaður Russell segir að hann hafi verið rólegur maður sem lítið hafi farið fyrir, en allir hafi kunnað vel við hann. 

Flugferðin stóð yfir í um 90 mínútur á föstudagskvöld en vélin brotlenti þá á eyjunni Ketron, sem er afskekkt svæði í Puget Sound. 

Talsmaður bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, segir að talið sé að hann hafi verið einn um borð. Það eigi þó eftir að staðfesta nánar. 

Búið er að birta hluta af samskiptum Russells við flugumferðarstjórn. Þar má heyra í manni sem er nokkuð hissa yfir því sem honum tókst að gera, en hann virðist ekki átta sig til fulls á því hvernig allt í vélinni virkar. Hann sagðist ekki ætla að skaða neinn og biður ættingja sína afsökunar á hegðun sinni, en hann kveðst vera brotinn einstaklingur. 

Vél Horizon Air sem er af gerðinni Bombardier Dash 8 …
Vél Horizon Air sem er af gerðinni Bombardier Dash 8 Q400. AFP

Talsmenn flugfélagins og flugvallarins héldu blaðamannafund í gærmorgun í Seattle. Þar kom fram að Russell hefði haft fulla heimild til að vera á svæðinu og að hann hefði ekki gerst sekur um að brjóta gegn öryggisreglum á svæðinu. Talsmaður flugfélagins segir að ferill Russell hafi verið kannaður áður en hann var ráðinn til starfa. Hann segir að hann hefði verið á vakt á föstudag í einkennisfatnaði. 

Gary Beck, forstjóri Horizon Air, segist ekki vita til þess að Russell hafi verið með flugmannsréttindi og áttar sig ekki á því hvernig honum tókst að fljúga vélinni, sem þykir ekki einfalt verk. Um var að ræða 76 sæta tveggja hreyfla vél af gerðinni Bombardier Q400. Hún tók á loft um kl. 19:32 að staðartíma (kl. 02:32 að íslenskum tíma). 

Lögreglan segir að hann hafi notað notað ökutæki á vellinum til að stilla vélinni upp þannig að hann gæti flogið henni beint af stað. Það vakti mikla athygli sjónvarvotta sem mynduðu það þegar hann flaug vélinni heilan hring og tókst að ná aftur jafnvægi rétt yfir sjónum.

Bandaríski flugherinn sendi tvær orrustuþotur af gerðinni F-15 á vettvang eftir að tilkynning barst um að vélinni hefði verið stolið og flogið af stað. Mörg myndskeið hafa birst á netinu sem sýna þoturnar á eftir farþegavélinni. 

Orrustuþoturnar fengu það verkefni að fá vélina inn til lendingar og taka fram að þær hafi aldrei skotið á vélina. Yfirvöld misstu samband við Russell um kl. 20:47 að staðartíma, eða rúmri klukkustund eftir að hann tók á loft frá flugvellinum í Seattle. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert