Yfirvöld á Indónesíu segja að tala þeirra sem létust í jarðskjálftanum sem reið yfir eyjuna Lombok um síðustu helgi sé komin vel yfir 400 manns. Óttast er að talan eigi enn eftir að hækka, en björgunarsveitir leita nú í húsarústum og aurskriðum sem féllu eftir skjálftann.
„Björgunarsveitir eru enn að grafa látið fólk úr húsarústum og aurskriðum,“ segir Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður Almannavarna. Sagði hann tölu látinna nú vera komna upp í 436. Þá hafi rúmlega 1.300 manns slasast í jarðskjálftanum og 353.000 hafi orðið að yfirgefa heimili sín.
Mikill fjöldi fólks er því enn heimilislaus og víða er skortur á hreinu vatni, mat og lyfjum. Vegir eru víða illa skemmdir eftir skjálftann sem gerir björgunarsveitum erfiðara um vik að koma hjálpargögnum til skila.
Skjálftinn varð á sunnudaginn í síðustu viku og mældist 6,9 að stærð. Hann jafnaði mörg þúsund heimili við jörðu á eyjunni, en viku áður varð annar stór skjálfti sem varð 17 að bana.