Forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, hvatti í dag þjóð sína til að horfa til framtíðar og segja skilið við þær deilur sem urðu í kjölfar forsetakosninga í landinu í síðasta mánuði.
„Nú er tímabært að segja skilið við kosningarnar og horfa björtum augum til framtíðar,“ sagði Mnangagwa í ræðu sem hann hélt í dag í tilefni af opinberum hátíðisdegi þar sem sjálfstæðishetjur landsins eru heiðraðar.
Staðan í Simbabve er hins vegar sú að stjórnarandstaðan, MDC-flokkurinn, hefur sakað framboð Mnangagwa um kosningasvik og hefur innsetningu hans í embætti verið frestað.
Stjórnarandstaðan hafnar niðurstöðum kosninganna sem hún segir vera „falsaðar“. Kosningarnar fóru fram 30. júlí og í byrjun ágúst var tilkynnt að Mnangagwa, sitjandi forseti, væri sigurvegari þeirra.
Mnangagwa, sem var mikill stuðningsmaður forsetans fyrrverandi Robert Mugabe, hlaut 50,8% atkvæða. Þar sem hann hlaut meirihluta atkvæðanna þurfti ekki að kjósa á milli tveggja efstu en sá sem hlaut næstflest atkvæði er Nelson Chamisa.
Mnangagwa hét því fyrir kosningarnar að þær færu friðsamlega fram og að hann myndi einbeita sér að því að endurreisa landið og efnahag þess eftir stjórnartíð Mugabe. Sex létust í mótmælum tengdum kosningunum og hefur Mnangagwa farið fram á að sjálfstæð rannsókn fari fram á dauða mótmælendanna.