Segir Newman „kjánalega“ og „illgjarna“

Newman hefur birt upptökur af samtölum sínum við Trump og …
Newman hefur birt upptökur af samtölum sínum við Trump og Kelly. AFP

Omarosa Manigault Newman, fyrrverandi ráðgjafi Donald Trump og keppandi í raunveruleikaþáttunum Apprentice, hefur gert opinberar upptökur af því sem hún segir vera samtal við forsetann, eftir að hún var rekin úr Hvíta húsinu í lok síðasta árs, ásamt fleiri samtölum. Á einni upptökunni, sem er frá því daginn eftir að hún var rekin, virðist Trump vera mjög hissa vegna málsins. „Það var enginn sem sagði mér neitt um þetta mál,“ heyrist karlmannsrödd segja, en hún fullyrðir að um sé að ræða forsetann. Hann hafi hringt í hana eftir að hún var rekin. BBC greinir frá.

Newman hefur einnig birt leynilega upptöku af fundinum þar sem John Kelly, starfsmannastjóri Trump, rak hana um miðjan desember á síðasta ári.

Tilefni birtingarinnar er ný sjálfsævisaga Newman sem kemur út í vikunni, en þar opinberar hún ýmislegt sem gekk á í Hvíta húsinu og við gerð áðurnefndra raunveruleikaþátta. Trump er ekki par hrifinn af útgáfu ævisögunnar og hefur ekki vandað fyrrverandi ráðgjafa sínum kveðjurnar á Twitter. Hann hefur kallað hana „lúsablesa“, sagt hana „kjánalega“ og „illgjarna“. Hún hafi aldrei náð neinum árangri og það muni hún aldrei gera. Hann segir starfsfólk í Hvíta húsinu hafa hatað hana. Henni hafi ekki fylgt neitt nema vandamál.

Á upptökunni sem Newman segir vera af samtali hennar og Trump segist hann hafa heyrt að hún sé að hugsa um að segja upp starfi sínu og spyr hvað sé í gangi. Þá segir hún að Kelly hafi kallað hana á sinn fund og sagt að forsetinn vildi hana burt úr Hvíta húsinu. Hann segist þá ekki hafa heyrt neitt um það. „Þú veist að það er stór aðgerð í gangi, en ég vissi þetta ekki. Fjandinn hafi það. Ég er ekki hrifinn af því að þú farir,“ segir Trump.

Á upptökunni sem hún segir vera af fundinum þegar Kelly rak hana, heyrist hann segja að hana hafi skort heilindi. Hún hafi notað ökutæki Hvíta hússins og svo hafi verið vandamál með peninga og annað. „Það eru nokkur alvarleg lögbrot sem hafa átt sér stað, en við munum ráða við þetta,“ heyrist hann segja á einum stað.

„Ef þú ferð í friði, þá geturðu litið á tímann í Hvíta húsinu sem þjónustu við bandarísku þjóðina og þú getur haldið áfram án þess að það hafi áhrif á orðspor þitt.“

Newman mun hafa spurt hvort Trump vissi af þessu, en Kelly sagðist ekki ætla að ræða þetta frekar. Ekki væri hægt að semja neitt um þetta.

Meðal þess sem kemur fram í sjálfsævisögu Newman er að Trump hafi margoft notað „n-orðið“ við gerð raunveruleikaþáttanna Apprentice. Til sé myndband sem sanni það. Þá segist hún hafa orðið vitni að rasískum ummælum forsetans um George Conway, eiginmann Kellyanne Conway, ráðgjafa Hvíta hússins, en George er hálfur Filippseyingur.



Trump vandar Newman ekki kveðjurnar á Twitter.
Trump vandar Newman ekki kveðjurnar á Twitter. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert