Minnst 35 létu lífið þegar tæplega 300 metra kafli Morandi-brúarinnar hrundi á Ítalíu fyrr í dag. Barn er meðal hinna látnu. Brúin er staðsett nærri ítölsku borginni Genúa og hafa ítalskir fjölmiðlar greint frá því að bílar hafi hrunið niður um hundrað metra þegar hluti brúargólfsins féll.
Mikil rigning var á svæðinu um það leyti sem brúin hrundi og hefur breska ríkisútvarpið það eftir sjónarvotti að eldingu laust niður í brúna rétt áður en hún hrundi. Samgönguráðherra Ítalíu heitir því að finna hver beri ábyrgð á slysinu. „Ég hef sjálfur keyrt þarna hundrað sinnum um,“ sagði Danilo Toninelli á Twitter.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að um 200 slökkviliðsmenn séu á vettvangi að vinna að björgun fólks sem er fast í bifreiðum sínum.
AFP hefur eftir slökkviliðsmanni á svæðinu að brúin hafi að mestu hrunið á lestarteina fyrir neðan brúna, en „bílar og flutningabílar fylgdu með“.
Genúa er staðsett milli sjávar og fjalla á norðvesturhluta Ítalíu. Fjalllent landsvæðið gerir það að verkum að hraðbrautir í kringum borgina eru ýmist á brúarstólpum eða í jarðgöngum.
Uppfært 16:08
Að minnsta kosti 35 létu lífið vegna brúarhrunsins.