Yfir þrjú hundruð kaþólskir prestar í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum eru grunaðir um að hafa misnotað yfir eitt þúsund börn kynferðislega á síðustu 70 árum. Þetta kemur fram í skýrslu sem stjórnvöld í ríkinu gáfu út í dag og var kynnt á blaðamannafundi í kvöld.
Ríkissaksóknaraembættið í Pennsylvaníu óskaði eftir rannsókninni sem hefur staðið yfir í eitt og hálft ár. Í skýrslunni kemur fram að hátt settir menn innan kirkjunnar hafi ítrekað þaggað niður brot prestanna í áraraðir og þvertekið fyrir ásakanir sem bornar hafi verið á kirkjunnar menn. Börn og unglingar, drengir og stúlkur, voru misnotuð af prestunum. „Öllum var þeim ýtt til hliðar af leiðtogum kirkjunnar sem kusu að vernda níðingana og stofnunina ofar öllu,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Meðal hátt settra ráðamanna kirkjunnar sem eru gagnrýndir í skýrslunni er Donald Wuerl, kardináli og erkibiskup í Washington, sem er sagður hafa átt þátt í að hylma yfir brotin.
Þar sem áratugir eru frá því að flest brotanna voru framin er meirihluti þeirra fyrndur. Joseph Shapiro, yfirmaður dómsmála í ríkinu, leggur til að fórnarlömbin geti sótt bætur til ríkisins jafnvel þótt brotin séu fyrnd samkvæmt lögum.
„Hæstráðendur kirkjunnar lýstu misnotkuninni ítrekað og ákveðið sem ærslagangi og leik. Þetta var ekkert af þessu. Þetta var kynferðisleg misnotkun, þar á meðal nauðganir,“ sagði Shapiro á blaðamannafundinum í kvöld.
Rannsóknin er með umfangsmestu rannsóknum sem gerðar hafa verið á kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum frá því að greint var frá brotum presta í Boston fyrir um það bil tuttugu árum.