Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, hefur lýst yfir 12 mánaða neyðarástandi í borginni Genúa eftir að hluti Morandi-brúarinnar hrundi í gær.
39 eru látnir og 15 eru alvarlega slasaðir. Leit stendur enn yfir í rústunum og verður henni haldið áfram næstu daga en óttast er að fleiri finnist ekki á lífi.
Héraðsstjóri Liguria-héraðs, Giovanni Toti, óskaði eftir því á blaðamannafundi í dag að ítölsk yfirvöld myndu grípa til aðgerða vegna hruns brúarinnar. Aðgerðirnar felast í yfirlýsingu neyðarástands og loforði um fjármagn til héraðsins. Yfirvöld munu leggja fram fimm milljónir evra, eða sem nemur tæplega 620 milljónum íslenskra króna, sem munu standa straum af kostnaði við björgunarstörf og uppbyggingu á svæðinu.
Reiði og angist er meðal íbúa á Ítalíu eftir slysið. Samgöngumálaráðherra Ítalíu, Danilo Toninelli, hefur sagt að umsjón og viðhald Autostrade á brúnni hafi verið ófullnægjandi og hefur kallað eftir því að forsvarsmenn fyrirtækisins segi af sér. Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur einnig sagt að „enginn sem finnst sekur um þessa hörmung sleppi við refsingu.“ Þá hefur forsætisráðherrann Guiseppe Conte sagt að slíkur harmleikur megi aldrei endurtaka sig.