Tala látinna vegna brúarhrunsins í Genúa á Ítalíu í gærdag er komin upp í 38 en enn er einhverra saknað. Þetta sagði Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, í morgun.
„Staðfest dauðsföll eru núna orðin 38 og enn er nokkurra saknað,“ sagði Salvini sem er væntanlegur til Genúa síðar í dag.
Ítalska ríkisstjórnin sagði í morgun að hún ætli að kanna möguleikann á að rifta samningi við fyrirtækið sem rekur hraðbrautir landsins og beita það hárri sekt.
„Það fyrsta sem ætti að gerast er að yfirmenn hjá Autostrade per I'Italia segi af sér,“ sagði samgöngumálaráðherrann Danilo Tonielli á Facebook en fyrirtækið Autostrade rekur brúna sem hrundi. „Og þar sem brot hafa átt sér stað á samningnum höfum við sett af stað ferli sem lyktar með riftun samningsins og 150 milljóna evra sekt,“ sagði hann.