Grátur heyrist úr rústunum

AFP

Leitað var í alla nótt í rústum Morandi-brúarinnar við Genúa á Ítalíu sem hrundi í gær. Samkvæmt fréttum ítalskra fjölmiðla má heyra grát fólks úr rústunum. Enn er nokkurra saknað en vitað er að 31 lést þegar brúin hrundi. Tugir bifreiða féllu 45 metra þegar brúin gaf sig. Fréttum ber ekki saman um hversu margra er enn saknað, allt frá fjórum upp í tólf manns. 16 slösuðust. 

Um 250 slökkviliðsmenn taka þátt í leitinni og hafa þeir notið aðstoðar leitarhunda. „Við gefumst ekki upp,“ segir yfirmaður slökkviliðsins, Emanuele Giffi, í samtali við AFP. Hann segir að slökkviliðsmenn haldi leitinni áfram þangað til tryggt sé að allir þeir sem talið er að geti verið í rústunum finnist. 

Þegar brúin hrundi var unnið viðhaldi hennar og mikið úrhelli var í Liguria-héraði í gær. Eldingu laust í brúna skömmu áður en hún hrundi. Að sögn innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini eru um 30 látnir og margir þeirra slösuðu eru alvarlega slasaðir. Hann ítrekaði í morgun að þeir sem beri ábyrgð á hruni brúarinnar verði látnir gjalda þess. Talið er að 35 hafi látist þar á meðal þrjú börn á aldrinum átta til 12 ára. 12 þeirra 16 sem eru slasaðir eru alvarlega slasaðir.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert