Íbúar ósáttir við kjarnorkudrenginn

Sólardrengurinn í hlífðargallanum á að standa keikur gegn erfiðleikum. Íbúar …
Sólardrengurinn í hlífðargallanum á að standa keikur gegn erfiðleikum. Íbúar í Fukushima telja hann hins vegar gefa í skyn að geislavirkni gæti í borginni. AFP

Íbúar japönsku borg­ar­inn­ar Fukus­hima eru ósátt­ir við styttu af dreng í hlífðargalla og segja hana gefa í skyn að borg­in sé enn menguð eft­ir kjarn­orku­slys sem þar varð árið 2011.

Kjarn­orku­ver Fukus­hima varð fyr­ir flóðbylgju árið 2011 sem olli al­var­leg­asta kjarn­orku­slysi sem orðið hef­ur frá kjarn­orku­slys­inu í Cherno­byl á ní­unda ára­tug síðustu ald­ar.

Stytt­an var reist á stall sinn í þess­um mánuði og seg­ir listamaður­inn að hún snú­ist um von um heim án kjarn­orku­hörm­unga. Hef­ur listamaður­inn Kenji Yano­be nú beðið íbúa af­sök­un­ar á að valda þeim óþæg­ind­um, að því er BBC grein­ir frá.

Jap­anska Kyodo-frétta­stof­an seg­ir reiða íbúa hafa tjáð sig um málið á sam­fé­lags­miðlum. Þeir hafi haft sam­band við borg­ar­yf­ir­völd og kraf­ist þess að stytt­an verði fjar­lægð þar sem að hún skaði orðspor Fukus­hima.

Stytt­an nefn­ist Sól­ar­barnið og er staðsett við lest­ar­stöð borg­ar­inn­ar. Hún sýn­ir dreng í gul­um hlífðargalla með hjálm í ann­arri hendi og tákn sól­ar­inn­ar í hinni. Mæl­ir á brjósti hans sýn­ir þá töl­una „000“ sem tákn um að geisla­virkni sé eng­in.

„Ég vildi búa til verk sem hvet­ur fólk [...] og gerði styttu af barni sem sýn­ir hug­rekki og styrk gegn erfiðleik­un­um sem það stend­ur frammi fyr­ir,“ sagði Yano­be.

Þrír af kjarna­ofn­um Fukus­hima-kjarn­orku­vers­ins biluðu eft­ir að flóðbylgja olli skemmd­um á ver­inu, sem er um 100 km suðaust­ur af borg­inni.

Rúm­lega 200.000 manns neydd­ust til að yf­ir­gefa heim­ili sín vegna hætt­unn­ar á meng­un sem fylgdi í kjöl­farið. Þá fór­ust rúm­lega 18.500 manns í jarðskjálft­an­um sem olli flóðbylgj­unni og hafa sum­ir þeirra enn ekki fund­ist.

Hlut­ar kjarn­orku­vers­ins eru enn mengaðir, en stærsti hluti svæðis­ins hef­ur þó verið lýst­ur ör­ugg­ur og eru yf­ir­völd nú með her­ferð í gangi um „end­ur­vakn­ingu“ Fukus­hima, sem ætlað er að veita upp­lýs­ing­ar og gagn­sæi við hreins­un­ar­ferlið.

Ein­ung­is fáir hafa þó kosið að snúa aft­ur á þau íbúa­svæði í ná­grenn­inu sem rýmd voru, þrátt fyr­ir að langt sé síðan þau voru sögð ör­ugg til bú­setu.

Borg­ar­stjóri Fukus­hima hef­ur varið á Twitter þá ákvörðun að setja upp stytt­una og seg­ir henni hafa verið vel tekið á lista­sýn­ing­um í Jap­an og víðar um heim. Hvatti hann til skiln­ings og sagði að ólíkt vís­ind­um þá væri nú­tíma­list abstrakt.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert