Segir Tyrki hafa mestu að tapa

Lanteigne segir Tyrki tapa verulega á deilu sínum við Bandaríkin …
Lanteigne segir Tyrki tapa verulega á deilu sínum við Bandaríkin og hætta sé á að samdráttur í tyrkneska hagkerfinu verði langvarandi. Þá segir hann ástandið geta smitað til Evrópu. mbl.is/Rósa Braga

Tyrkir eru einangraðir og hafa mestu að tapa í deilum sínum við Bandaríkin, segir dr. Marc Lanteigne, við Massey-háskóla í Auckland á Nýja-Sjálandi. Hann segir hættu vera á að Tyrkland gæti endað eins og Venesúela haldist stefna deiluaðila óbreytt.

„Þessi pólitísku átök í vikunni milli Ankara og Washington, og tilheyrandi fjármálakrísa í Tyrklandi, er nýjasta dæmi stefnu ríkisstjórnar Donalds Trumps um að nota viðskiptaþvinganir sem vopn til þess að knýja fram stjórnmála- og efnahagsbreytingar án samstarfs við önnur ríki,“ segir Lanteigne í skriflegu svari til mbl.is.

Lanteigne hefur kennt alþjóðasamskipti við Háskóla Íslands og er reglulegur gestur á ráðstefnum hérlendis um alþjóðamál.

Erdogan „öskureiður“

Hann segir deiluna milli Tyrklands og Bandaríkjanna á þessu stigi aðallega snúast um bandaríska klerkinn Andrew Brunson sem er í haldi tyrkneskra yfirvalda.

Brunson er sakaður um að hvetja til uppreisnar gegn lögmætum yfirvöldum Tyrklands. Tyrkir segja hann tengjast kúrdíska verkamannaflokknum, sem yfirvöld í Tyrklandi segja hryðjuverkahóp, og tengjast hreyfingu Fethullah Gulen, sem sökuð er um að standa að baki misheppnaðs valdaráns 2016. Gulen er í útlegð í Bandaríkjunum.

Forseti Bandaríkjanna, hefur farið fram á að Brunson verði látinn laus. „Bandaríkin hafa beitt Tyrklandi verulegum efnahagslegum þrýstingi til þess að mótmæla aðgerðum Tyrkja og er tyrkneska hagkerfið mjög viðkvæmt fyrir. Á móti sakar Recep Teyyip Erdogan, forseti Tyrklands, Washington um að svara af offorsi í þeim tilgangi að grafa undan tyrkneskum stjórnvöldum,“ segir Lanteigne.

„Erdogan er öskureiður yfir aðgerðum Trumps gegn vinaþjóð innan NATO og sagt þessa stefnu ígildi efnahagslegrar stríðsyfirlýsingar,“ staðhæfir hann.

Tyrkland einangrað

Samkvæmt Lanteigne mun Evrópusambandið ekki sakna samskiptanna við Tyrki, hins vegar eru verulegar áhyggjur af stöðunni á fjármálamarkaði í Tyrklandi þar sem ástandið gæti smitað yfir á evrusvæðið. „Sérstaklega vegna viðvarandi óvissu tengdri skuldastöðu Ítalíu.“

Tyrkland er aðilinn sem á mestu að tapa í deilunni þar sem hagkerfi þess hefur þegar orðið fyrir verulegum skelli að sögn Lanteigne. „Ríkið hefur fáa vini og bandamenn sem það getur reitt sig á. Samstarfsaðilar á borð við Íran, Rússland og Katar geta ekki bætt tjónið sem fylgir takmörkun á aðgengi að vestrænum mörkuðum,“ segir hann.

Tyrkir munu eiga erfitt með að finna nýja samstarfsaðila að mati Lanteigne og mun verða mjög erfitt að halla sér í att að Rússlandi að sögn hans. „Það verður að hafa í huga að það er ekki langt síðan að nánast urðu vopnuð átök milli ríkjanna vegna rússneskrar herþotu sem Tyrkir skutu niður 2015.“

„Martröð Tyrklands er að lenda í sömu aðstæðum og Venesúela, en staðan er ekki komin á það stig enn þá. Tyrkir eru að horfa upp á langvarandi efnahagskrísu ef báðir aðilar, Tyrkland og Bandaríkin, halda óbreyttri stefnu,“ segir Lanteigne.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert