Monsanto segir dóminn byggja á hjávísindum

Umhverfissinnar hafa lengi fundið Monsanto flest til foráttu og hafa …
Umhverfissinnar hafa lengi fundið Monsanto flest til foráttu og hafa þeir hótað að færa mótmæli sín yfir til Bayer, viðhafi það framleiðsluhætti fyrirtækisins. AFP

Það kann að verða á brattann að sækja hjá Monsanto, sem stærsti efna­fram­leiðandi til land­búnaðar í Banda­ríkj­un­um, varðandi áfrýjun í máli manns sem hélt því fram að hann hefði fengið krabbamein eftir að hafa notað plöntueyði frá fyrirtækinu. Monsanto, sem mun að sögn Reuters-fréttastofunni áfrýja málinu, var dæmt til að greiða manninum 289 milljónir dala, sem samsvarar rúmum 30 milljörðum kr., í skaðabætur vegna notkunar hans á Roundup-plöntueyðinum sem inniheldur efnið glýfosat.

Hefur fyrirtækið sagt dóminn vera verk „upptendraðs kviðdóms“ og að hann byggi á „hjávísindum“. Slík rök segir Reuters hins vegar ekki líkleg til að sannfæra dómstóla. Áfrýjun kemur þó væntanlega fæstum á óvart enda er dómurinn sagður geta opnað flóðgáttir málaferla á hendur fyrirtækinu, sem nýlega var keypt af þýska lyfja- og efnafyrirtækinu Bayer. En hvaða fyrirtæki eru þetta eiginlega? 

Seldi heróín sem hóstamixtúru

Bayer var stofnað í Þýskalandi 1863 og er hvað best þekkt í dag fyrir aspirínframleiðslu sína. Öllu dekkri blettur á sögu fyrirtækisins er sala Bayers á heróíni í upphafi 20. aldar, en efnið var þá sett á markað sem hóstamixtúra og staðgengill morfíns. Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar var Bayer enn fremur hluti af IG Farben-samsteypunni sem framleiddi Zyklon B-skordýraeitrið sem notað var í gasklefum Hitlers.

Bayer hefur síðastliðin ár vaxið upp í sannkallaðan lyfja- og efnarisa og starfa nú um 100.000 manns hjá fyrirtækinu víðs vegar um heim.

Roundup-plöntueyðirinn inniheldur glýfosat sem sumir vísindamenn telja geta verið krabbameinsvaldandi.
Roundup-plöntueyðirinn inniheldur glýfosat sem sumir vísindamenn telja geta verið krabbameinsvaldandi. AFP

Átti þátt í framleiðslu Agent Orange

Monsanto var stofnað í St. Louis í Missouri árið 1901 og framleiddi þá sætuefnið sakkarín. Á fimmta áratug síðustu aldar var fyrirtækið byrjað að framleiða efni fyrir landbúnaðarframleiðslu, m.a. plöntueyðinn 2,4-D sem í bland við önnur hættuleg efni var notað til að framleiða hinn illræmda Agent Orange-gróðureyði.

Bandaríski herinn úðaði honum í miklu magni á skóga Víetnam í Víetnamstríðinu í því skyni að aflaufga trén og hindra þannig víetnamska andstæðinga sína í að fela sig í skóginum. Milljónir Víetnama þjást enn þann dag í dag vegna þessa.  

Það var svo árið 1976 sem best þekkta afurð Monsanto, plöntueyðirinn Roundup kom á markað.

Á níunda áratugnum voru það svo vísindamenn Monsanto sem voru fyrstir til að framleiða erfðabreytta plöntufrumu. Í kjölfarið tók fyrirtækið að kaupa upp aðra fræframleiðendur og hóf tilraunir með erfðabreytta ræktun. Með tímanum tókst Monsanto að framleiða yrki af sojabaunum, maísbaunum, bómullarplöntu og öðrum jurtum sem ekki drepast komist þau í snertingu við Roundup.

„Monsatan“ og „Mutanto“

Það er ekki ofsögum sagt að segja að Monsanto sé umdeilt og áratugum saman hafa umhverfisverndarsinnar, ekki hvað síst í Evrópu, fundið fyrirtækinu flest til foráttu. Það hefur m.a. fengið viðurnefnin „Monsatan“ og „Mutanto“ hjá ýmsum umhverfisverndarsinnum sem telja neyslu erfðabreyttrar fæðu hættulega.

Roundup-framleiðslan sætir ekki síður gagnrýni og hafa sumir vísindamenn sagt glýfosat líklegt til að valda krabbameini á meðan aðrar rannsóknir draga þær niðurstöður í efa.

Bayer sagði raunar áður en dómurinn féll að það gerði ráð fyrir að losa sig við Monsanto-nafnið á vörum fyrirtækisins í von um að losa sig með því við illt orðspor þess. Náttúruverndarsamtökin Friends of the Earth, sem hafa sagt samrunann vera „djöfullegt hjónaband“, fullyrða að nafnabreytingin breyti engu, þau muni einfaldlega beina gagnrýni sinni gegn Bayer svo lengi sem það haldi úti framleiðsluháttum Monsanto.

Þá hefur ekki síður verið gagnrýnt að með samruna Bayer og Monsanto sé fræframleiðsla og framleiðsla plöntueyða komin á hendur fárra fyrirtækja sem leiði til hærra verðlags og takmarki valkosti bænda og neytenda.

Kröfurnar kunna að nema milljörðum dala

Hlutabréf Bayers féllu um meira en 10% þegar dómstóllinn úrskurðaði garðyrkjumanninum í vil og hefur Monsanto heitið því að áfrýja dómnum, enda sé notkun Roundup „örugg“.

Michael Leacock, sérfræðingur við Main First-bankann, segir niðurstöðu dómsins vera „óheppilega“ fyrir Bayer sem staðfesti kaup sín á Monsanto fyrir einungis tveimur mánuðum.

„Það verður að teljast líklegt að fjárfestar líti þessi viðskipti hornauga,“ sagði Leacock.

Þar sem þörfin fyrir aukna landbúnaðarframleiðslu fer sívaxandi vegna stöðugrar mannfjölgunar voru forsvarsmenn Bayer hins vegar áhugasamir um að eignast Monsanto, ekki hvað síst erfðabreytt fræ fyrirtækisins sem þola sterka plöntueyða á borð við Roundup. Þá freistaði gagnahluti fyrirtækisins, Climate Corp, einnig, en Bayer telur að bændur muni á næstu árum reiða sig í sívaxandi mæli á stafræna mælingu á uppskeru sinni.

Kostnaðurinn við yfirtökuna á þó mögulega eftir að reynast fullhár. Bayer varð að losa sig við mikið af eigin fræ- og landbúnaðarfyrirtækjum til að fá kaupin samþykkt og var það helsti keppinautur þeirra í heimalandinu, Þýskalandi, BASF, sem tók yfir þann hluta.

Og nú kann svo að fara að Bayer verði að leggja háar fjárhæðir til hliðar til að standa straum af dómsmálum sem kunna að vera höfðuð í framtíðinni vegna Roundup.

„Heildarkostnaðurinn kann að okkar mati auðveldlega að ná 10 milljörðum dollara, neyðist Bayer til að semja við fleiri kröfuhafa,“ segir Leacock.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert