Nýsjálendingar banna húsakaup útlendinga

Lögunum er ætlað að minnka spurn eftir húsnæði og lækka …
Lögunum er ætlað að minnka spurn eftir húsnæði og lækka verð. Stjórnarandstæðingar segja þau drifin áfram af útlendingaandúð og senda slæm skilaboð til erlendra fjárfesta. Ljósmynd/Phillip Perry (Wikimedia Commons)

Nýsjálenska þingið hefur samþykkt lög sem banna erlendum ríkisborgurum, sem ekki eru búsettir í landinu, að kaupa íbúðarhúsnæði og jarðir þar.

Lögunum, sem gilda um alla erlenda ríkisborgara nema Ástrala og Singapúra, er ætlað að minnka spurn eftir íbúðarhúsnæði í landinu og lækka verð. Fjórðungur fullorðinna Nýsjálendinga býr í eigin húsnæði en í frétt Guardian kemur fram að hlutfallið hafi verið helmingur árið 1991 og að heimilislausum hafi á sama tíma fjölgað. Milli Ástralíu, Nýja-Sjálands og Singapúr eru í gildi fríverslunarsamningar og eru þeir ástæða þess að borgarar ríkjanna tveggja eru undanskildir lögunum.

Þau eru sett að undirlagi ríkisstjórnar landsins, sem leidd er af jafnaðarmönnum en í henni sitja einnig fulltrúar þjóðernisflokksins New Zealand First. Húsnæðismál voru í brennidepli í kosningum í landinu í september í fyrra og er lagasetningin í samræmi við loforð jafnaðarmanna fyrir kosningar, þar sem flokkurinn hlaut 37 prósent atkvæða og bætti við sig tólf prósentum frá síðustu kosningum. Var þar með endi bundinn á níu ára valdatíð Þjóðarflokksins (New Zealand National Party) en flokkurinn er þó enn stærsti flokkurinn á þingi eftir að hafa hlotið 45 prósent atkvæða.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

3,3% húsnæðis selt útlendingum

„Við teljum að markaðurinn fyrir nýsjálenskt íbúðarhúsnæði og jarðir eigi að vera fyrir Nýsjálendinga, ekki kaupendur utan úr heimi,“ sagði aðstoðarráðherra fjármála í samtali við Guardian. „Við eigum ekki að vera leigjendur í eigin landi,“ sagði hann í þingræðu á miðvikudag.

Úttekt Ecomomist á húsnæðismörkuðum í fyrra leiddi í ljós að hvergi er dýrara að festa kaup á fasteign en á Nýja-Sjálandi og hefur húsnæðisverð í Auckland til að mynda hækkað um 75% á síðustu fjórum árum, þótt markaður hafi reyndar kólnað á síðustu mánuðum.

Að sögn Parker eru 20% húsnæðis í miðborg Auckland í eigu erlendra ríkisborgara, en ekki fylgir sögunni hve stór hluti þeirra býr í Nýja-Sjálandi eða hefur ástralskt eða singapúrskt ríkisfang. Hlutfallið er þó mun lægra á landsvísu en á síðasta ársfjórðungi, apríl til júní 2018, voru 3,3% af seldu íbúðarhúsnæði seld útlendingum. Voru Kínverjar stórtækastir kaupenda en þar á eftir Ástralar, Bretar og Bandaríkjamenn.

Þjóðarflokkurinn, sem situr í stjórnarandstöðu, hefur mótmælt lagasetningunni. Í yfirlýsingu segir Amy Adams, talmaður flokksins í fjármálum, að bannið byggist á útlendingaandúð og sendi slæm skilaboð til erlendra fjárfesta, auk þess sem tiltrú viðskiptalífsins á viðskiptaumhverfi Nýja-Sjálands hafi ekki verið minni síðan árið 2008.

„Ríkisstjórnin hefur sett þetta fram sem einhvers konar töfralausn á húsnæðisvanda Ný-Sjálendinga en vísbendingar eru um að aðgerðin verði til þess að auka á vandræðin,“ sagði Adams, án þess að fara nánar út í þá sálma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert