Trump lætur fjölmiðla áfram heyra það

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Yfir hundrað bandarísk dagblöð, stór sem smá, birtu í morgun leiðara þar sem fjallað var um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar en um var að ræða samstillta herferð fjölmiðla vegna orðræðu Dondalds Trump Bandaríkjaforseta um fjölmiðla og „fake news“ á undanförnum misserum.

Það var ritstjórn Boston Globe sem hratt herferðinni af stað og tóku yfir 300 fjölmiðlar í landinu þátt undir myllumerkinu #EnemyofNone. Sagði í leiðara blaðsins að forseta Bandaríkjanna hafi tekist að búa til möntru um að því fjölmiðlafólki sem ekki styðji Bandaríkjastjórn sé hreinlega ekki treystandi.

Donald Trump svaraði herferðinni fullum hálsi á Twitter-síðu sinni eins og hans er von og vísa. Í fyrsta tísti dagsins sagði hann að „Fake News“ - lygafréttir – væru stjórnarandstaðan í Bandaríkjunum. „En við erum að vinna,“ skrifaði Trump.

Trump er búinn að tísta alls þrisvar sinnum vegna herferðarinnar. Í öðru tísti dagsins gerði hann eignarhald Boston Globe tortryggilegt. 

„Boston Globe var selt til hins sökkvandi New York Times fyrir 1,3 milljarð dala, auk 800 milljóna dala taps og fjárfestingar, eða 2,1 milljarð dala. Var síðan selt af Times fyrir einn dal. Núna er Globe í leynimakki með öðrum miðlum um frjálsa fjölmiðlun. Sannið það,“ skrifaði hann.

Loks sagði Trump að hann vildi ekkert meira en raunverulega frjálsa fjölmiðlun í Bandaríkjunum. „Staðreyndin er sú að fjölmiðlar mega skrifa og segja það sem þeir vilja, en margt af því sem þeir segja eru lygafréttir, pólitískur áróður eða bara verið að koma höggi á fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert