Skipulögð glæpastarfsemi, fjárkúganir, fátækt og takmarkaður aðgangur að menntun og þjónustu eru meðal helstu ástæðna þess að fjölskyldur flýja frá ríkjum Mið-Ameríku.
Ástæðan fyrir því að fjölskylda Pilar, sem er 15 ára, flúði frá Hondúras var ógn sem steðjaði að stúlkunni af hálfu glæpasamtaka. Hún átti að selja líkama sinn í fjáröflunarskyni fyrir samtökin. Fjölskyldan seldi heimilið og flúði land því eins og pabbi hennar segir: „Við erum fjölskylda.“
Pilar og fjölskylda hennar eru frá borginni El Progreso og sóttu um hæli í Gvatemala vegna hótana frá þekktum glæpasamtökum, B18. Allt hófst þetta með því að skólasystir Pilar, sem er félagi í B18, krafði Pilar um að selja sig í vændi. Fjármunina átti hún að afhenda samtökunum og þeir áttu að fara í rekstur þeirra. Þegar Pilar neitaði hófust hótanirnar og henni var hótað lífláti.
Faðir Pilar segir að á hverjum degi deyi ungmenni í El Progreso og stundum hafa glæpagengin ekki einu sinni fyrir því að skila líkum þeirra til fjölskyldna þeirra svo hægt sé að jarðsyngja.
Mjög oft taka þau stelpurnar,“ segir pabbi Pilar. „En þú getur ekki farið til lögreglunnar þar sem hún er hluti spillingarkeðjunnar.“
Það var erfið ákvörðun fyrir fjölskylduna að rífa sig upp með rótum og sækja um alþjóðlega vernd í Gvatemala. Þar hefur fjölskyldan dvalið í móttökumiðstöð fyrir flóttafólk síðan í apríl. En eins og pabbi Pilar segir þá eru þau fjölskylda og þau séu tilbúin til þess að gera hvað sem er til þess að koma Pilar til hjálpar.
Á hverjum degi yfirgefa börn og fjölskyldur frá El Salvador, Gvatemala, Hondúras og Mexíkó heimkynni sín og halda í norðurátt. Því þrátt fyrir að Mexíkó sé helsti áfangastaður flóttafólks frá ríkjunum eru einnig margar fjölskyldur á flótta frá Mexíkó.
Oft eru margar ástæður fyrir því að fólk yfirgefur heimili sitt, svo sem gríðarleg fátækt, ört vaxandi ógn af völdum skipulagðra glæpasamtaka og fá tækifæri fyrir börn að njóta menntunnar. Ein helsta ástæðan er að sameinast öðrum úr fjölskyldunni sem þegar eru flúnir.
Í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, kemur fram að 31,5% þeirra barna og ungmenna sem hafa verið send aftur heim til Hondúras segja að helsta ástæðan fyrir flóttanum hafi verið til þess að sameinast fjölskyldunni.
Arnold Linares er prestur og stýrir miðstöð fyrir ungmenni í Rivera Hernandez, einu hættulegasta hverfi San Pedro Sula í Hondúras. Glæpagengin skipta hverfinu á milli sín og þar eru það þau sem ráða lögum og lofum.
Hann segir að glæpagengin, ofbeldi og fátækt séu helstu ástæður þess að íbúarnir reyna að flýja. Eins skipti skortur á tækifærum miklu máli. Linares áætlar að um helmingur liðsmanna í skipulögðum glæpasamtökum á svæðinu sé undir lögaldri. Börn séu tekin inn í glæpasamtökin meðal annars til þess að sinna aftökum fyrir samtökin. Því börn eru ekki send í fangelsi. Börn verða vitni og þátttakendur í alls konar hryllingi sem þrífst innan glæpasamtakanna, eiturlyfjanotkun, aftökum og kynlífsánauð.
Miðstöðin sem Linares stýrir nýtur stuðnings UNICEF og eitt helsta markmið starfsfólksins er að bjóða ungmennum upp á afþreyingu og tækifæri. Með því sé kannski hægt að halda þeim utan glæpasamtakanna. Linares segir að þetta njóti stuðnings leiðtoga glæpasamtakanna á svæðinu, sem eitt sinn voru börn í hverfinu. „Gerið þið það að halda börnunum uppteknum,“ segir einn af leiðtogunum, „annars gerum við það.“
El Salvador, Gvatemala og Hondúras eru meðal fátækustu landa í þessum heimshluta. Um 74% barna í Hondúras búa við fátækt, 68% barna í Gvatemala og 44% barna í El Salvador. Um 63% þeirra barna á flótta sem eru handtekin í Mexíkó og Bandaríkjunum eru úr samfélögum en meðal þeirra er fátæktin enn meiri en almennt gerist í landinu.
Fátækt kemur í veg fyrir að börn hafi aðgang að næringarríkum mat, heilbrigðisþjónustu og hreinlæti. Jafnframt eru litlar líkur á að fjölskyldur sem búa við fátækt hafi kost á því að senda börn í skóla. Jafnvel þó svo þau fái tækifæri til þess þá eru þau líklegri til þess að fá lélegri menntun en önnur börn því skólarnir eru yfirleitt illa búnir og kennararnir án nægilegrar þjálfunar og menntunar sjálfir. Án menntunar eru fáar leiðir færar fyrir börnin þegar þau verða fullorðin og þannig heldur hringrás fátæktar áfram, kynslóð eftir kynslóð.
Í Hondúras njóta aðeins 46,7% barna á aldrinum 12-14 ára skólagöngu og aðeins 28,1% ungmenna á alrinum 15-17 ára. Margar fátækar fjölskyldur sjá því fá önnur úrræði en að reyna að flýja til Mexíkó eða Bandaríkjanna þar sem þær eygja von um líf fyrir börn sín.
Samkvæmt gögnum frá InSight Crime er tíðni morða gríðarlega há í þessum ríkjum. Til að mynda voru 60 af hverjum 100.000 íbúum El Salvador myrtir í fyrra. Í Hondúras var hlutfallið 42,8 af hverjum 100 þúsund og í Gvatemala 26,1. Til samanburðar voru morðin 1,68 af hverjum 100 þúsund íbúum Kanada.
Í Hondúras er barn myrt á hverjum degi og hlutfallið er hærra í Gvatemala þar sem 942 börn voru drepin í fyrra, þar af 77% með skotvopni.
Flóttinn er langt því frá hættulaus og eru fylgdarlaus börn og konur í mestri hættu. Þau eru auðvelt skotmörk smyglara, glæpamanna og skipulagðra glæpasamtaka, sérsveita og annarra sem hagnast á því að misnota, selja og jafnvel drepa fólk.
Eins er alltaf hætta á að fjölskyldum sé sundrað á flóttanum og fjölmörg dæmi um að börn hafi orðið viðskila við foreldra sína.
Tæplega 290 þúsund flóttamenn voru stöðvaðir og handteknir á landamærum Bandaríkjanna frá því október í fyrra þangað til í júní. Af þeim voru tæplega 40 þúsund börn sem voru ein á flótta.
Staðan er svipuð í Mexíkó en yfirleitt eru börn tekin frá foreldrum sínum og höfð annars staðar ef þau hafa náð 12 ára aldri. Rannsóknir sýna að slíkur aðskilnaður getur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar fyrir börnin. Þau þjást mjög oft af áfallastreituröskun og mörg þeirra ná sér aldrei.
Aðgerðaáætlun UNICEF fyrir börn á flótta og faraldsfæti:
Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
Á vef UNICEF er hægt að gerast heimsforeldri en framlag þeirra fer í stuðning við börn víða um heim.