Öryggislending vegna sprengjugabbs

Boeing 753.
Boeing 753. Ljósmynd Karsten Palz/Conor

Þýskri farþegaþotu, með 250 manns um borð, var lent í öryggisskyni á flugvelli á grísku eyjunni Krít í gærkvöldi vegna tilkynningar um að sprengja væri um borð. Í ljós kom að um gabb var að ræða en flugvélin er enn á Krít.

Farþegaþotan, Boeing 753, er í eigu þýska flugfélagsins Condor og var að koma frá sumarleyfisstaðnum Hurghada í Egyptalandi á leið til Düsseldorf. Þegar sprengjuhótunin barst óskaði flugstjórinn strax eftir heimild til öryggislendingar á flugvellinum við Chania á Krít. 

Við leit í þotunni á flugvellinum fannst ekkert grunsamlegt að sögn lögreglu í morgun en farþegarnir gistu í Chania í nótt. Þotan heldur af stað til Þýskalands síðar í dag. 

Í maí 2016 brotlenti þota EgyptAir á leið frá París til Kaíró í Miðjarðarhafið skammt frá Krít. Allir um borð, alls 66 manns, létust. Rannsókn leiddi í ljós að eldur kom upp skammt fyrir utan flugstjórnarklefa þotunnar, Airbus A320, áður en hún hrapaði. Leifar sprengiefnis fundust á líkum fólks sem var um borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert