Kínverski flugherinn hefur aukið umfang æfinga sinna og er „líklega að æfa árásir“ á Bandaríkin og bandamenn þeirra, segir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í skýrslu sem var birt síðdegis í gær. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að fjárveitingar Kínverja til varnarmála árið 2017 hafi verið rúmlega 190 milljarðar Bandaríkjadala, andvirði rúmlega 20 þúsund milljarða íslenskra króna.
Mat varnarmálaráðuneytisins kemur fram í árlegri skýrslu ráðuneytisins til bandaríska þingsins um stöðu varnar- og öryggismála í tengslum við Kína, og segir Reuters skýrsluna leggja áherslu á áform Kínverja um aukin áhrif á heimsvísu.
„Á síðustu þremur árum hefur Kínaher skjótt aukið getu sína til þess að notast við sprengjuflugvélar yfir sjó, aflað þekkinga og reynslu á mikilvægum hafsvæðum og er líklega að æfa árásir á skotmörk sem tilheyra Bandaríkjunum og bandamönnum,“ segir í skýrslunni.
Samkvæmt skýrslunni hefur Kína sífellt fjölgað hernaðaraðgerðum og -æfingum sínum. Skýrsluhöfundar telja þó ekki ljóst hver skilaboð Kínverja séu með þessum aðgerðum, fram yfir það að sýna aukna hernaðargetu sína.