Innan við helmingur fjölskyldna þeirra sem létust er Morandi-brúin í Genúa hrundi á þriðjudag hefur samþykkt boð stjórnvalda um opinbera útför að því er BBC greinir frá. Mikil reiði ríkir á Ítalíu í garð stjórnvalda vegna hruns brúarinnar.
38 manns létust hið minnsta er brúin hrundi, en að sögn ítalskra fjölmiðla verða aðeins 14 fórnarlambanna grafin við opinbera athöfn á morgun, laugardag. Sjö fjölskyldur til viðbótar eru þá sagðar eiga enn eftir að gera upp hug sinn.
Á fimm árum hafa fimm brýr á Ítalíu brugðist og voru hörmungarnar á þriðjudag þær mannskæðustu sinnar tegundar frá árinu 2001. Ástand Morandi hefur lengi verið til umræðu á Ítalíu og þá sér í lagi hversu lengi brúin myndi endast í núverandi ástandi.
BBC hefur eftir móður eins fórnarlambsins að hún telji ítalska ríkið bera ábyrgðina og að þessi „skrúðganga stjórnmálamanna“ sé skammarleg.
Sagði Nunzia, móðir 26 ára manns, Gerardo Esposito sem er í hópi hinna látnu, ríkisstjórnina ekki eiga að láta sjá sig í jarðarförum fórnarlambanna.
Giovanni Battiloro var með Esposito í bíl þegar brúin hrundi. „Við viljum engar farsaathafnir,“ sagði Roberto faðir hans sagði í samtali við dagblaðið Il Messagero. „Börnin okkar eru ekki tæki fyrir einhverja opinbera skrúðgöngu ... þau eiga að fá sína hinstu kveðju meðal þeirra sem elskuðu þau.“
Denise Vittone, systir Andrea Cerulli, sem lést á brúnni með konu sinni og börnum, sagði í samtali við La Stampa að hann „treysti ekki lengur ríkinu“.
Aðrir hafa sagst einfaldlega vilja syrgja í friði.
BBC segir 17 fjölskyldur hafa til þessa valið að jarða ástvini sína í friði, frekar en að taka þátt í opinberri útför sem sótt verður af forseta, forsætisráðherra og öðrum æðstu ráðamönnum Ítalíu.