Nú er ljóst að 43 eru látnir eftir að Morandi-brúin í Genúa hrundi á þriðjudag. Þetta fékkst staðfest seint í nótt þegar björgunarlið fann lík pars og níu ára dóttur þeirra inni í bíl undir brúarbrakinu, degi eftir að haldin var opinber útför fyrir nokkra þeirra sem létu lífið þegar brúin hrundi.
Um leið er ljóst að allir þeir eru fundnir sem tilkynnt hafði verið að væri saknað. Björgunarlið mun þó halda áfram að leita í braki brúarinnar.
Í gær fannst verkamaður á fertugsaldri látinn í brakinu auk þess sem annar maður, sem fluttur hafði verið á sjúkrahús, lést þar af áverkum sínum.
Stórslysið og afleiðingar þess þykja mikið hneyksli á Ítalíu og hafa heitar umræður vaknað um ástand og viðhald innviða landsins.
Stjórnvöld í Róm kenna hlutafélaginu Autostrade per l'Italia um hrun brúarinnar, en fyrirtækið sér um rekstur nær helmings vegakerfis landsins, þar á meðal A10-vegarins sem brúin þjónaði.
Skipaður saksóknari í málinu hefur þá gagnrýnt hvernig farið sé með innviði Ítalíu. Ríkið hafi reynt að firra sig ábyrgð á vegaöryggi með því að afhenda einkaaðilum reksturinn, segir Francesco Cozzi í viðtali sem birt var í dag í dagblaðinu Corriere Della Sera.
„Hugmyndafræði kerfisins í dag endurspeglast í ríki sem svipt hefur verið völdum sínum; eins konar fjarverandi eigandi.“