Strandaglópar í leit að betra lífi

Venesúelabúar við landamæri Ekvador.
Venesúelabúar við landamæri Ekvador. AFP

Stjórnvöld í Ekvador hafa innleitt nýja reglugerð sem kemur í veg fyrir að farandfólk frá Venesúela fái inngöngu í landið án vegabréfa. Margir sitja fastir í Kólumbíu, en þúsundir Venesúelamanna hafa flúið efnahagskreppu og pólitískan óstöðugleika í heimalandi sínu á síðustu misserum. Flestir reyna að komast til Perú eða Chíle og hitta ættingja, en til þess þarf að fara í gegnum Ekvador.

Stjórnvöld í Kólumbíu hafa nú mótmælt reglugerðinni, þar sem fjöldi berskjaldaðs fólks situr fast þeirra megin við landamærin. Meira en milljón Venesúelamanna hafa ferðast inn í Kólumbíu á síðustu fimmtán mánuðunum og yfir 4.000 manns hafa komið að landamærunum við Ekvador daglega, samkvæmt umfjöllun BBC.

Við landamæri Ekvador.
Við landamæri Ekvador. AFP

Margir með auðkenniskort en ekki vegabréf

Reglugerðin tók gildi í Ekvador í gær en hingað til hafa Venesúelamenn getað farið inn í landið með auðkenniskort. Fjölmargir hafa gengið vikum saman eða fengið far í bíl með ókunnugum og eru uppgefnir þegar þeir koma að landamærum Ekvador, einungis með auðkenniskort.

Christin Kruger Sarmiento, yfirmaður stofnunar sem fer með innflytjendamál í Kólumbíu, segir í samtali við fréttastofu BBC að reglugerðin komi einungis til með að valda fleiri vandamálum.

Fjölmargir hafa meðferðis auðkenniskort en ekki vegabréf.
Fjölmargir hafa meðferðis auðkenniskort en ekki vegabréf. AFP

„Að krefjast vegabréfa mun ekki stöðva fólksflutning því þessi fólksfjöldi er ekki að yfirgefa landið fyrir ánægju heldur af nauðsyn,“ segir hann.

„Það fyrsta sem mun gerast er að það verður aukning í óskráðum fólksflutningi. Henni fylgja mörg vandamál.“

Nágrannalönd herða eftirlit

Flæði farandfólks frá Venesúela hefur valdið mikilli spennu á svæðinu upp á síðkastið. Stjórnvöld í Perú hafa tilkynnt um svipaða reglugerð og Ekvador innleiddi í gær og þurfa Venesúelamenn að sýna vegabréf við landamærin þar frá og með 25. ágúst.

Í febrúar tilkynnti forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, að landamæraeftirlit yrði hert í landinu. Þá hafa stjórnvöld í Brasilíu, sem liggur að Venesúela, lýst yfir áhyggjum sínum af ástandinu og lokuðu landamærum sínum tímabundið fyrr í mánuðinum.

Við landamæri Ekvador.
Við landamæri Ekvador. AFP

Í Roraima-fylki í Brasilíu, sem er næst landamærunum við Venesúela, hafa átök og ofbeldi blossað upp. Þúsundir Venesúelamanna dvelja þar við vafasamar aðstæður.

Í landamærabænum Pacaraima í Roraima-fylki réðust reiðir íbúar að viðlegustöðum farandfólks frá Venesúela í gær. Árásin átti sér stað í kjölfar mótmæla í bænum eftir að veitingastaðaeigandi var að eigin sögn rændur og barinn af Venesúelabúum á svæðinu.

Samkvæmt umfjöllun BBC flúðu hundruð Venesúelabúa aftur yfir landamærin í kjölfarið og íbúar bæjarins kveiktu í eigum þeirra, sem skildar voru eftir. Venesúelamegin við landamærin voru fregnir um að ráðist hefði verið á brasilíska bíla.

Í Venesúela er um þessar mundir hæsta verðbólga í heiminum og verulegur skortur er á nauðsynlegum matvörum og lyfjum. Fjölmargir eiga í erfiðleikum með að fæða sig og fjölskyldur sínar og hafa ákveðið að yfirgefa landið í von um meiri efnahagslegan og pólitískan stöðugleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka