Börnum á flótta haldið á eyju í allt að sex ár

Börnunum hefur mörgum verið haldið á eyjunni allt sitt líf. …
Börnunum hefur mörgum verið haldið á eyjunni allt sitt líf. Peter Dutton er einn þeirra áströlsku stjórnmálamanna sem styðja núverandi innflytjendastefnu. „Læsið Dutton inni ekki börn!“ segir á skiltinu. AFP

119 börnum er haldið í nauðungarvist á eyjunni Nárú í Eyjaálfu. Stjórnmálamenn og aðgerðasinnar reyna nú að leysa börnin úr prísundinni. Á sama tíma hafa borist viðvaranir um að heilsa nokkurra barna sé á hraðri niðurleið.

Börnunum hefur mörgum verið haldið á Nárú allt sitt líf, en ótalmargar fjölskyldur flóttamanna voru fluttar þangað vegna innflytjendalaga Ástralíu, sem banna hælisleitendum sem koma með báti að setjast að í landinu.

Eftir því sem fram kemur á vef CNN segja áströlsk stjórnvöld að börnunum sé ekki lengur haldið í varðhaldsvist, en bæði þeim og foreldrum þeirra er óheimit að yfirgefa eyjuna.

Tólf ára drengur, sem hefur verið fastur á eyjunni í meira en ár, er alvarlega veikur eftir að hafa neitað að matast og drekka í að minnsta kosti tvær vikur. Flytja þarf hann til meginlandsins til meðferðar, að sögn lækna. 

Starfsemi búðanna á Nárú hefur verið mótmælt af 30 áströlskum …
Starfsemi búðanna á Nárú hefur verið mótmælt af 30 áströlskum samtökum. AFP

Forseti samtaka lækna fyrir flóttamenn, Barri Phatarfod, sagði við CNN að drengurinn væri eitt nokkurra barna á Nárú sem hefur hrakað líkamlega og andlega að undanförnu.

„Við vitum að hann neitar að borða og drekka,“ sagði Phatarfod.

Fer aftur í þroska

Áströlsk stjórnvöld tóku að flytja hundruð flóttamanna og hælisleitenda, þar á meðal börn, til Nárú árið 2012. Síðan þá hafa borist reglulegar frásagnir af slæmu ásigkomulagi þeirra. 

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016 segir frá „mörgum sjálfsmorðstilraunum, sjálfsíkveikjum, sjálfsskaða og þunglyndi“ á meðal barna í varðvist á Nárú.

Meina fólki að fara

Annarri varðhaldsmiðstöð, svipaðri og þeirri á Nárú nema hvað að þar voru einungis karlmenn, var lokað á Manus-eyju í Papúa Nýju-Gíneu í lok síðasta árs. Hælisleitendurnir sem voru þar voru þó fluttir í aðra miðstöð og hafa ekki fengið að yfirgefa Papúa Nýju-Gíneu.

Innflytjendastefna ástralskra stjórnvalda er umeild og hefur búðum hælisleitenda á …
Innflytjendastefna ástralskra stjórnvalda er umeild og hefur búðum hælisleitenda á Manus og Náru oft verið mótmælt. AFP

Áströlsk stjórnvöld hafa undanfarin ár sagt að hörð stefna í landamæramálum sé nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir dauðsföll flóttamanna á hafi úti. Samkvæmt stefnunni þá eru þeir einstaklingar sem koma til Ástralíu á bátum sendir á minni eyjar í varðhald og sagt að þeir fái aldrei að koma sér fyrir á meginlandinu.

Yfir 30 stjórnmála- og hjálparsamtök í Ástralíu komu saman í dag til þess að krefjast þess að yfirvöld láti börnin 119 laus fyrir alþjóðlegan dag barnsins 20. nóvember.

„Nú reynir á hugrekki stjórnmálaleiðtoga að leysa úr þessum aðstæðum. Ef þeir falla á prófinu munum við halda áfram að vera málsvari þessara barna sem eru sett í aðstæður þar sem þau fá ekki tækifæri til þess að alast upp sem venjuleg, heilbrigð börn,“ sagði Claire Rogers, framkvæmdarstjóri kristilegrar hjálparsamtaka í Ástralíu.

Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru og …
Fjölmargir hafa látið lífið vegna bágra aðstæðna á Náru og Manus-eyju. AFP

Hingað til hefur ekkert bent til þess að ástralska ríkisstjórnin komi til með að hlusta á óskir um frelsun barnanna en Rogers segir að samtökin 30 muni halda baráttunni áfram. 

„Við vissum að þetta væri flókið vandamál, en að loka börn inni er engin lausn,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert