Lögreglan í úthverfi Barcelona skaut mann vopnaðan hnífi til bana í morgun en maðurinn hafði komið inn á lögreglustöð í Cornella og ráðist að lögreglu.
Greint er frá þessu í færslu á Twitter en fjölmiðlar á svæðinu segja að maðurinn sé frá Alsír og hann hafi ákallað guð á arabísku þegar hann ruddist inn. Aðeins nokkrir dagar eru síðan þess var minnst að ár er liðið frá hryðjuverkaárásum í Katalóníu. Sextán létust 17. ágúst í fyrra þegar vörubíl var ekið inn í mannþröng á Römblunni í hjarta Barcelona og hnífaárás var framin í Cambrils. Ríki íslams lýsti ábyrgð á árásunum.