„Satt að segja finnst mér þetta forkastanlegt. Íslendingar eiga að taka sjálfstæða ákvörðun út frá þeirra hagsmunamati og Noregur á ekki að beita þá þrýstingi,“ segir Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður norska Miðflokksins (n. Senterpartiet), í samtali við norska dagblaðið Klassekampen.
Vísar Gjelsvik til orða Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í viðtali í Morgunblaðinu á föstudag um að hún hafi rætt afstöðu norskra stjórnvalda til þriðja orkupakka Evrópusambandsins við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og íslenska þingmenn.
„Það er mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri að norska Stórþingið hefur samþykkt þessa tilskipun. Fyrir okkur er mikilvægt að tilskipunin sé tekin upp í EES-samninginn, þar sem við nú þegar erum hluti af evrópskum orkumarkaði. Það er ákveðin hætta fyrir okkur ef hún myndi ekki öðlast gildi,“ sagði Søreide í viðtalinu.
Þriðji orkupakki Evrópusambandsins verður ekki hluti af EES-samningnum nema öll aðildarríki samþykki innleiðingu tilskipunar þess efnis. Norðmenn samþykktu á Stórþinginu í vor slíka gildistöku, en Alþingi hefur ekki afgreitt málið.
„Það er einnig í okkar eigin hag að neitunarvaldið [ríkja í EES] í samningnum viðhaldist. Ríkisstjórn vinstriflokkanna nýtti sér þetta neitunarvald til þess að stöðva pósttilskipunina og við verðum að virða það að öll EES-ríkin hafa þennan sama rétt,“ er haft eftir Gjelsvik.
Þá hafa einnig samtökin Nei til EU vakið athygli á orðum ráðherrans og samþykkti miðstjórn samtakanna ályktun vegna málsins um helgina. „Þetta eru ámælisverð afskipti af íslenskum stjórnmálum,“ segir í ályktuninni. Krafist er í ályktuninni að „norsk afskipti í máli er snertir fullveldi Íslendinga verði stöðvuð tafarlaust“.
Kathrine Kleveland, formaður samtakanna, fullyrðir við Nationen að Søreide sé að beita utanríkisráðherra Íslands og kjörna fulltrúa á Íslandi þrýstingi.
Spurð hvort ráðherra Noregs sé ekki heimilt að skýra afstöðu Noregs í málinu svarar Kleveland: „Hún [ráðherrann] má halda því fram sem hún telur rétt og segja frá því sem við höfum samþykkt í Noregi. En þegar sagt er að það sé einhver áhætta fyrir Noreg skyldu Íslendingar hafna tilskipuninni, er um að ræða óforskömmuð afskipti af íslenskum stjórnmálum.“
„Norsk yfirvöld verða að virða það að Íslendingar gætu ákveðið að segja nei,“ sagði hún.