„Urðum öll læknar þennan dag“

Sýrlenskur drengur heldur súrefnisgrímu fyrir vitum ungbarns bænum Douma í …
Sýrlenskur drengur heldur súrefnisgrímu fyrir vitum ungbarns bænum Douma í Austur-Ghouta eftir meinta efnavopnaárás stjórnarhersins. AFP

Ef forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, beitir efnavopnum á íbúa Idlib-héraðs verður því svarað segir ráðgjafi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, í öryggismálum. Í dag eru fimm ár frá því efnavopnum var beitt á íbúa Ghouta með þeim afleiðingum að rúmlega 1.300 létust. 

JohnBolton sagði þetta á blaðamannafundi í Jerúsalem í morgun. Hann segir að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé ekki að reyna að koma leiðtogum Írans frá völdum með því að auka refsiaðgerðir gagnvart ríkinu. Aftur á móti vilji ríkisstjórn Bandaríkjanna sjá veigamiklar breytingar á stjórnarháttum í Íran.

Sérstakur ráðgjafi forseta Bandaríkjanna í öryggismálum, John Bolton.
Sérstakur ráðgjafi forseta Bandaríkjanna í öryggismálum, John Bolton. AFP

Snemma morguns þennan dag árið 2013 var efnavopnum varpað á austur- og vesturhluta Ghouta en svæðið er skammt frá höfuðborg Sýrlands, Damaskus. Eldflaugum með sarín-gasi var skotið á íbúabyggðir og veiktust yfir sjö þúsund almennir borgarar. Yfir 1.300 létust, segir tannlæknirinn Mohamad Katoub sem tók þátt í að veita fórnarlömbum árásarinnar læknisaðstoð. Hann sendi bréf til fjölmargra þeirra sem fylgjast með þróun mála í Sýrlandi í gærkvöldi og eins er birt grein eftir hann í Independent í dag.

AFP

„Á þessum skelfilega degi urðum við öll læknar. Þrátt fyrir að vera menntaður tannlæknir man ég eftir því þegar ég hljóp á sjúkrahúsið til þess að aðstoða. Þar blasti við mér sýn sem var verri en nokkur martröð. Hugrakkir íbúar komu á sjúkrahúsið og buðu sig fram sem sjálfboðaliða. Voru reiðubúnir til þess að gera hvað sem var – að dæla vatni til þess að hreinsa gasið af líkömum fórnarlambanna, útvega eldsneyti og jafnvel að flytja slasaða á brott. Umfang árásarinnar var slíkt að ekki var nóg að fá alla þessa sjálfboðaliða til að sinna þeim sem þurftu á henni að halda,“ skrifar Katoub í bréfinu sem sent var í gærkvöldi.

Hann segir að þremur dögum eftir árásina þegar fólk gaf upp vonina um að finna ástvini á lífi hafi fólk farið að spyrja um þá sem voru látnir. Einhverjir þeirra, jafnvel börn, voru grafnir án þess að kennsl hefðu verið borin á þá. 

Barn liggur í sjúkrarúmi í bænum Zamalka í Ghouta-héraði.
Barn liggur í sjúkrarúmi í bænum Zamalka í Ghouta-héraði. AFP

Bæði sýrlenskir og erlendir fjölmiðlar fjölluðu um efnavopnaárásina og sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna voru ekki langt frá eða í Damaskus þar sem þeir rannsökuðu fyrri efnavopnaárásir. Þeir fundu gögn sem sýndu fram á að sarín-gasi hafi verið beitt. Vopni sem er á bannlista en samt sem áður sagði enginn af sér. 

Katoub segir að frá þessum degi og allt til dagsins í dag hafi efnavopnum verið beitt á sýrlensku þjóðina af stjórnvöldum í landinu og vígasamtökunum Ríki íslams. Árásin á Douma 7. apríl 2018 hafi verið skelfileg en þar létust 40 manns. Í kjölfarið hafi öryggisráðið greitt atkvæði í þrígang varðandi notkun efnavopna í Sýrlandi en í öll skiptin hafi Rússar beitt neitunarvaldi og komið í veg fyrir ályktanir ráðsins. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert