Dómstóll í London dæmdi í dag karlmann í sex ára fangelsi fyrir að krefjast bóta fyrir að hafa verið meðal íbúa í Grenfell-turninum, sem kviknaði í í júní í fyrra, að því er BBC greinir frá. Alls létust 72 í eldinum.
Maðurinn, Derrick Peters, dvaldi á Park Grand-hótelinu í Paddington eftir að halda því fram að hann hefði misst vin sinn og eigur í eldinum. Reikningur hans fyrir hóteldvölina nam alls 40.000 pundum (tæplega 5,6 milljónum kr.) og aukinheldur eyddi hann 5.000 pundum í mat, drykk og þvottahúsþjónustu hótelsins.
Peters, sem var heimilislaus, var handtekinn í ágúst í fyrra eftir að hafa brotist inn í íbúð í nágrenninu en þar stal hann skartgripum og öðrum munum að andvirði um 3.000 pund.
Bæjarfélagið hélt áfram að greiða hótelherbergið fyrir hann um tveggja mánaða skeið á meðan hann var í varðhaldi í Wandsworth-fangelsinu.
Hann ítrekaði sögu sína um að vera eitt fórnarlamba Grenfell-brunans er hann fékk skilorðsbundinn dóm í október það ár. „Hvernig í ósköpunum getur nokkur byrjað að skilja hvernig það er að missa vin í hörmungum á borð við Grenfell?“ sagði dómarinn við það tækifæri. Peters hélt sig áfram við sögu sína og var honum jafnvel boðin íbúð fyrir fórnarlömb brunans.
Það var síðan er Rebecca Ross, raunverulegt fórnarlamb brunans, staðfesti að Peters hefði ekki búið með sér, föður sínum Steve Power og þremur hundum þeirra eins og hann hélt fram að saga hans hrundi.
Peters játaði sig sekan um hindrun réttvísinnar og fyrir tvær svikaákærur. Hann fékk sex ára dóm í dag og hlaut einnig dóm á ný fyrir innbrotið.
Dómarinn sparaði ekki stóru orðin að þessu sinni og sagði Peters hafa náð slíkum lægðum með glæpum sínum að öllum almenningi fyndust þeir „viðurstyggilegir“. „Þú sveikst og laugst til að ná þínu fram og hagnaðist á eymd annarra. Það er litla miskunn að finna í slíkum málum,“ sagði dómarinn Robin Johnson.