Í gæsluvarðhaldi fyrir brot gegn börnum

Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er …
Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er um gróft kynferðsbrot, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir karlmanni sem grunaður er um gróft kynferðsbrot, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi. Þá liggur maðurinn einnig undir grun um fleiri kynferðisbrot gegn brotaþolanum, sem og ólögráða barni.

Fram kom í fréttum RÚV í kvöld að brotaþolarnir séu báðir börn á grunnskólaaldri. Mbl.is hafði samband við lögregluna á Suðurnesjum sem kýs að tjá sig ekki um málið. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 11. júlí og staðfesti Landsréttur að hann muni sæta gæsluvarðhaldi til 18. september.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi síðan 10. júlí 2018 haft til rannsóknar meint kynferðisbrot og ofbeldisbrot kærða gegn þessum tveimur einstaklingum. Er brotaþolinn sagður hafa komið á lögreglustöð þann dag og lagt fram kæru á hendur manninum og konu vegna kynferðisbrota sem hafi verið gróf og staðið yfir með reglubundnum hætti. Sama dag lagði annar einstaklingur fram kæru gegn kærða og sömu konu fyrir kynferðisbrot og ofbeldisbrot gegn ólögráða barni.

Í úrskurði héraðsdóms segir að rannsókn lögreglu hafi m.a. beinst að því að reyna að upplýsa umfang brotanna, hvort þau kunni að hafa verið framin af fleiri aðilum en kærða, hvort hann eigi sér samverkamenn í brotum sínum og hvort maðurinn hafi brotið gegn fleirum.

Unnið sé að því að taka skýrslur af brotaþolum, kærða og vitnum. Miðað við það sem fram er komið sé málið nokkuð umfangsmikið og vinnu við það ekki lokið.

Kærði og konan hafa bæði verið yfirheyrð og eru sögð hafa játað, á mismunandi tíma, brot gegn fyrstnefnda brotaþolanum.  

Er lögregla sögð hafa lagt hald á umtalsvert magn muna í eigu kærða, m.a. nokkra minniskubba, myndavélar, síma og nokkra USB-kubba, ásamt fjöldanum öllum af myndbandsspólum. Lögregla leggi nú lokahönd á að rannsaka innihald þessara muna.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi og einangrun frá 11. júlí síðastliðnum og er að mati lögreglu nauðsynlegt að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar. Sé það mat lögreglu að „ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafnalvarlegum brotum og kærða er gefið að sök og hafi þegar játað að hluta til, gangi laus áður en máli lýkur með dómi valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert