Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hvatti Francis Páfa til að tryggja öllum fórnarlömbum kynferðisbrotamanna innan kaþólsku kirkjunnar réttlæti, í ræðu sem hann hélt í tilefni opinberrar heimsóknar páfa til Írlands. Francis stóð við hlið forsætisráðherrans þegar hann gagnrýndi kaþólsku kirkjuna harðlega. AFP-fréttastofan greinir frá.
„Sár eru enn opin og það er mikil vinna fyrir höndum í að færa þessum fórnarlömbum réttlæti, leiða sannleikann í ljós og aðstoða þau við að takast á við áföllin. Heilagur faðir, ég bið þig um að nota völd þín og áhrif til að tryggja að þetta verði gert hér á Írlandi sem og annars staðar í heiminum,“ sagði forsætisráðherrann í ræðu sinni. Hann sagði jafnframt mikilvægt að orðum fylgdu aðgerðir.
Varadkar vísaði til fjölda kynferðisbrotamála sem komið hefðu upp innan kaþólsku kirkjunnar á Írlandi og sagði þau bletti á kirkjunni og samfélaginu öllu. „Arfleið sársauka og þjáninga.“
Francis páfi sagðist sjálfur upplifa sársauka og skömm yfir því að kaþólska kirkjan hefði ekki brugðist við fjölda kynferðisbrotamála sem komið hafa upp í gegnum tíðina.